„Okkur líkar öllum mjög vel á Íslandi“

Deila:

„Ég hef alfarið unnið við fiskvinnslu frá því ég flutti til Íslands,“ segir Olga Naumenkova sem er frá Lettlandi en flutti til Dalvíkur í febrúar árið 2005 ásamt eiginmanni sínum, Deniss Naumenkovs og rúmlega eins árs gamalli dóttur, Elenu, sem nú er um tvítugt. Olga starfar við gæðaeftirlit í fiskvinnsluhúsi Samherja á Dalvík og kann vel við sig í starfinu sem hún segir að sé fjölbreytt og skemmtilegt.

Faðir Olgu, Sergej Kuznecov, bjó á Dalvík þegar Olga flutti hingað til lands. Hann lagði talsvert upp úr því að fjölskyldan væri öll saman og hvatti hana að flytja sig milli landa, koma til Íslands þar sem tækifærin til að lifa góðu lífi væru fyrir hendi. „Við ákváðum að slá til og prófa, ég kláraði skólann sem ég var í og síðan tókum við okkur til og fluttum beint til Dalvíkur. Í fyrstu höfðum við í huga að vera nokkur ár, kannski þrjú að hámarki, safna peningum og fara svo aftur heim. Okkur líkaði hins vegar öllum svo vel að við erum ekki farin enn og ætli við förum nokkuð að taka upp á því héðan af,“ segir Olga sem hefur því búið á Íslandi í tæpa tvo áratugi. Eftir að til Íslands var komið bættist við sonurinn Dmitry sem er 10 ára. „Okkur líkar öllum mjög vel á Íslandi,“ bætir hún við en maður hennar starfar hjá Sæplasti.

Byrjaði að vinna í fiski fljótlega eftir komuna
Olga segir að hún hafi strax við komuna til Dalvíkur tekið eftir því að fólk var vingjarnlegt, það brosti til hennar og hún fann strax fyrir öryggi. „Ég er sammála pabba mínum núna um að það sé best að búa á Íslandi,“ segir hún en fjölskyldan hefur keypt fallega íbúð í rað-
húsi á Dalvík og unir hag sínum mjög vel.

Olga fékk fljótlega eftir komuna til Íslands vinnu í fiskvinnslunni á Dalvík og hefur unnið í fiski allar götur síðan. Hún segir að gaman að vinna í fiski, starfið sé skemmtilegt og fjölbreytt. „Vinnustaðurinn er góður, allir hjálpast að og það er góður andi í húsinu,“ segir hún.

Nánar er rætt við Olgu í nýjasta tölublaði Ægis.

Deila: