„Þetta mun hafa veruleg áhrif í bænum“

Deila:

„Með öllu saman; slátrun á fiski og pökkun erum við að áætla að við verðum með á bilinu 100 til 120 starfsmenn í beinum störfum, í fullum afköstum. Annað eins kemur til vegna óbeinna starfa,“ segir Lárus Ásgeirsson, stjórnarformaður landeldisfyrirtækisins Laxey í Vestmannaeyjum. Fyrirtækið áformar að framleiða 32 þúsund tonn af laxi árið 2031.

Laxey opnaði núna í byrjun desember seiðaeldisstöð í Friðarhöfn Vestmannaeyjum. Fyrirtækið hefur þegar tekið inn fyrsta skammtinn af hrognum en í fullum afköstum gerir Lárus ráð fyrir því að geta framleitt 4 milljónir seiða á ári í stöðinni. Seiðaeldisstöðin elur seiðin upp í 100 grömm en þaðan fara þau í lokaða landeldisstöð fyrirtækisins, sem verið er að byggja í Viðlagafjöru. Fiskinum verður slátrað þegar hann hefur náð fimm kílóum að þyngd.

Seiðin verða í um 10 til 12 mánuði í seiðaeldisstöðinni áður en þau fara yfir í áframeldisstöðina í Viðlagafjöru. Þar verða þau í um ár í viðbót áður en að slátrun kemur. Ræktunin tekur því um tvö ár í heild. Hann áréttar að fyrsti skammtur hrogna sé kominn í stöðina en næsti skammtur komi eftir um þrjá til fjóra mánuði. „Seiðastöðin verður komin í fulla framleiðslu eftir um níu mánuði.“

Hraunsíaður sjór

Aðstæður til fiskiframleiðslu í Viðlagafjöru eru afar hentugar að sögn Lárusar. Áframeldisstöðin er reist á hrauninu sem rann út í sjó árið 1973. „Þetta er frábær staður. þar erum við með gott aðgengi að hraunsíuðum jarðsjó,“ segir Lárus og bætir við að eiginleikar hraunsins til að sía sjó sé dýrmæt auðlind. Sjórinn verði fyrir vikið laus við allt lífrænt efni. Þannig verði engin hætta á smiti, svo sem vegna vírusa, baktería eða laxalúsar.

Um er að ræða gríðarstórt verkefni. Fimm milljarðar hafa þegar verið lagðir til uppbyggingarinnar en Lárus segir að í heild hlaupi fjárfestingin á um 55 milljörðum króna. Hann segir aðspurður að upphafsmenn verkefnisins séu Daði Pálsson og Hallgrímur Steinsson en hluthafar fyrirtækisins séu í dag fjölmargir. Um er að ræða innlent fjármagn að fullu.

Eins og áður segir verður fiskeldið afar stór vinnustaður á mælikvarða Eyjamanna. „Það starfa nú þegar 130 manns við að byggja og reka fyrirtækið – mikið til verktakar auðvitað. En þetta hefur og mun hafa veruleg áhrif í bænum,“ segir hann að lokum.

Nánar er rætt við Lárus  í nýju tölublaði Ægis.

Deila: