Rúnar frá Marel til Aquatiq

Deila:

Rúnar Birgisson hefur verið ráðinn framkvæmdastjóri fyrir Aquatiq á Íslandi, en hann hefur langa reynslu af störfum í sjávarútvegi og hefur m.a. starfað fyrir Marel í Seattle síðastliðin 10 ár og þar á undan fyrir Marel á Íslandi í tæp 15 ár. Þetta kemur fram í tilkynningu frá fyrirtækinu. Þar segir að Aquatiq hafi yfir 100 starfsmenn í 8 löndum nú þegar Ísland bætist í hópinn og þjónusti fyrirtækið, sjávarútveg, eldisiðnað og matvælavinnslur. „Starfsemin er með fókus á ráðgjöf varðandi gæðastaðla, tæki fyrir fiskeldi og fiskvinnslur, efni sem uppfylla matvælastaðla, þrifakerfi, bakteríu próf og hugbúnað.”

„Ég er mjög spenntur fyrir starfinu framundan”, er haft eftir Rúnari í tilkynningunni. „Ég hef þekkt stofnendur Aquatiq síðan ég hóf störf hjá Marel fyrir tæpum 25 árum. Þetta eru miklir fagmenn og hafa m.a. áhrif á evrópustaðlana fyrir þrifavæna hönnun matvælalausna og því leiðandi á sínu sviði. Fyrirtækið hefur yfirgnæfandi markaðsstöðu í norskum fiskeldisiðnaði á sínu sviði og við eigum von á að svo verði einnig á Íslandi, þegar fram líða stundir.”

Fyrirtækið verður staðsett í Sjávarklasanum úti á Granda í Reykjavík.

Deila: