Tveimur bjargað af sökkvandi báti
Stjórnstöð Landhelgisgæslunnar barst um áttaleytið í gærkvöldi neyðarkall frá bát á utanverðum Skagafirði. Fram kemur í tilkynningu frá Gæslunni að leki hafi verið kominn að bátnum og útlit fyrir að skipverjarnir tveir yrðu að yfirgefa hann. Nærstödd skip voru beðin um aðstoð auk þess sem þyrla Landhelgisgæslunnar og björgunarskip frá Skagaströnd og Siglufirði héldu á staðinn. Þá var Hercules-flugvél frá bandaríska flughernum send á staðinn.
Skipverjarnir tveir náðu að komast í flotgalla og í björgunarbát og sagði Sveinn H. Guðmarsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar, þá hafa brugðist hárrétt við. Skipverjarnir eru heilir á húfi. Ekki reyndist mögulegt að bjarga fiskibátnum. Báturinn maraði um tíma í kafi þannig að aðeins stefnið stóð upp úr. Möguleikar á því að ná bátnum úr kafi voru kannaðir en slíkt reyndist ekki mögulegt. Landhelgisgæslan segir að með þessu atviki hafi sannast hversu mikilvægt það er að sjó- menn hlusti á neyðarrásina 16, en skjót viðbrögð réðu úrslitum. Frá þessu er sagt í Morgunblaðinu í dag.