Mannfjöldi skoðaði nýjan Kaldbak EA
Eyjafjörður skartaði sínu fegursta þegar nýr Kaldbakur EA 1 sigldi til heimahafnar á Akureyri í fyrsta sinn í gærmorgun. Hinn 43 ára gamli Sólbakur, áður Kaldbakur EA 1, fór til móts við skipið og saman sigldu þau til Akureyrar. Eftir að Kaldbakur EA hafði verið bundinn við bryggju var skipið opið í nokkrar klukkustundir og nýtti mikill fjöldi fólks sér tækifærið að skoða skipið.
Kaldbakur EA 1 er fyrsta skipið af fjórum samskonar ísfisktogurum sem smíðaðir eru hjá Cemre skipasmíðastöðinni í Tyrklandi. Næstur kemur Björgúlfur EA til Dalvíkur í vor, þriðja skipið er smíðað fyrir FISK Seafood í haust og það fjórða í röðinni er fyrir Samherja og kemur í árslok.
Nú hefst smíði og niðursetning búnaðar á vinnsluþilfar Kaldbaks en það verkefni hefur Slippurinn Akureyri með höndum. Reiknað er með að skipið fari á veiðar snemmsumars.
Myndir Jóhann Ólafur Halldórsson.