Sveigjanleiki nauðsynlegur

Deila:

Nauðsynlegt er fyrir útgerðina að fá aukið svigrúm til þess að geta hliðrað veiðiheimildum sínum milli fiskveiðiára. Tíu vikna sjómannaverkfall varð til þess að áætlanir í rekstri margra fyrirtækja breyttust og því þarf að vera hægt að bregðast við. Þetta segir Jens Garðar Helgason, formaður Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi í samtali við Morgunblaðið í dag.

Jens Garðar á ráðstefnu

Sjávarútvegsráðherra hefur gefið út reglugerð sem heimilar færslu 30% aflaheimilda milli ára. Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda segja þessa ráðstöfun kippa fótunum undan rekstrargrundvelli sjálfstæðra fiskverkenda og við blasi að segja verði upp hundruðum starfsmanna víðs vegar um landið.

„Nú þekki ég ekki hvernig félagsmenn SFÚ haga sínum rekstri og veit ekki hvernig þeir fá það út að segja þurfi upp hundruðum starfsmanna,“ segir Jens Garðar. Eftir að sjómannaverkfalli lauk segir hann fulltrúa sjávarútvegsins hafa talað fyrir því að auka þyrfti sveigjanleika í fiskveiðistjórnuninni sakir sérstakra aðstæðna eftir verkfall. Stjórnvöld hafi sýnt því skilning og breytingin sé svar við því kalli.

Nær til bolfisktegunda

Umrædd breyting á reglum nær aðeins til bolfisktegunda, enda er þörfin mest þar. „Auðvitað er mjög misjafnt milli fyrirtækja hvernig kvótastaðan er eftir verkfallið. Nýtt fiskveiðiár hefst 1. september og þá sést endanlega hversu mörg fyrirtæki munu nýta flutning á milli ára. Það er nauðsynlegt að sveigjanleiki sé fyrir hendi enda mun hann ekki síst koma starfsfólki í fiskvinnslu og sjómönnum til góða,“ segir Jens Garðar.

Deila: