Unnið að aukningu verðmæta makrílsins

Deila:

Nú er í gangi verkefni hjá Matís, styrkt af AVS og Tækniþróunarsjóði Rannís, sem snýr að því ýta undir frekari fullvinnslu á makríl og auka þar með verðmæti hans.

Fram að þessu hefur verið algengast að flytja út makríl, sem ætlaður er til manneldis, heilfrystan til t.d. Kína þar sem hann hefur verið handflakaður og unnin frekar í verðmætar afurðir. Slík framkvæmd er dýr og óumhverfisvæn og gerir það að verkum að minni verðmæti sitja eftir í íslensku hagkerfi. Aukinheldur gerir flökun hér á landi fyrirtækjum kleift að nýta það sem til fellur við flökun í aðrar verðmætar afurðir til dæmis snyrtivörur eða fæðubótarefni. Því er það keppikefli íslenskra fyrirtækja í sjávarútvegi að finna leið til þess að flaka makríl hér á landi.

Makríll er, eins og margt annað sjávarfang, viðkvæmt hráefni og ætli menn að fá sem mest verðmæti úr makrílveiðum þarf að huga vel að allri meðferð aflans, frá miðum í maga. Þegar makríll er við Íslandsstrendur er hann um margt viðkvæmari en til dæmis þegar hann er vestur af Noregi, bæði er meira um rauðátu og eins er fiskurinn lausari í sér og erfiðari til vinnslu.

Matís var þátttakandi í verkefni þar sem Íslendingar, Norðmenn og Færeyingar unnu í sameiningu að ferlum sem nýst gætu við vélflökun makríls. Þessum rannsóknum var síðan framhaldið í samstarfi Síldarvinnslunnar á Neskaupstað og Matís og þá tekið sérstaklega á þeim áskorunum sem fylgja makrílnum þegar hann veiðist hér við land.

Markmið verkefnisins er m.a. að meta hvort makríll henti í flakaafurðir þegar hann er veiddur við Íslandsstrendur. Rannsakað verður geymsluþol frosinna flaka pakkað á mismunandi vegu og hvernig tryggja má a.m.k. 12 mánaða geymsluþol. Verkefnið mun skila nýrri þekkingu til að stýra gæðum lokaafurða.

Nánari upplýsingar veitir dr. Magnea G.Karlsdóttir hjá Matís.

Til baka

 

Deila: