SVN styrkir Þrótt

Deila:

Í síðustu viku var undirritaður styrktar- og auglýsingasamningur á milli Síldarvinnslunnar hf. og Íþróttafélagsins Þróttar. Hér er um að ræða endurnýjun á samningi sem hefur verið í gildi undanfarin ár en nýi samningurinn mun gilda til tveggja ára. Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri Síldarvinnslunnar undirritaði samninginn fyrir hönd fyrirtækisins og Guðlaug Ragnarsdóttir fyrir hönd Þróttar. Eysteinn Þór Kristinsson gjaldkeri Þróttar var viðstaddur undirritunina

Í samtali við heimasíðuna sagði Gunnþór að Síldarvinnslan væri stolt af því að geta lagt Þrótti lið enda væri starf félagsins til fyrirmyndar. „Þróttur gegnir afar mikilvægu hlutverki í samfélaginu og Síldarvinnslan vill leggja sitt af mörkum til að starf félagsins megi halda áfram að blómstra,“ sagði Gunnþór.

Þau Guðlaug og Eysteinn sögðu að samningurinn væri gríðarlega mikilvægur fyrir Þrótt og það væri mikill styrkur fyrir félagið að eiga jafn sterkan bakhjarl og Síldarvinnsluna. Við undirritun samningsins sagði Gunnþór að hann saknaði Stefáns Más Guðmundssonar formanns Þróttar sem lést í síðasta mánuði og tóku þau Guðlaug og Eysteinn undir það. Í kjölfarið féllu mörg fögur orð um Stefán og hans störf á íþróttasviðinu í bænum.
Á myndinni eru talið frá vinstri: Guðlaug Ragnarsdóttir, Gunnþór B. Ingvason framkvæmdastjóri og Eysteinn Þór Kristinsson. Ljósm. Karl Jóhann Birgisson

Deila: