Eru að klára kvótann við Noreg

Deila:

Íslensku skipin eru langt komin með að klára þorskkvóta sinn innan lögsögu Noregs í Barentshafi. Samkvæmt aflastöðulista Fiskistofu hefur verið landað 5.777 tonnum. Leyfilegur heildarafli er 6.882 tonn og eru því óveidd 1.104 tonn. Tvö skip eru nú að veiðum þar og eftir að þau landa er líklegt að lítið sem ekkert standi eftir.

Átta skip hafa þegar landað af úr Barentshafinu. Kleifabergið hefur landað mestu, 1.192 tonnum af þorski. Næst kemur Sigurbjörg ÓF með 989 tonn og þá Þerney með 967. Arnar HU hefur landað 791 tonni, Oddeyrin EA 645 tonnum, Snæfell EA er með 443 tonn, Gnúpur GK 395 tonn og Sólbakur EA 355 tonn.

Þerney og Oddeyrin eiga eftir heimildir í eina veiðiferð hvort skip og eru þau bæði að veiðum þarna norðurfrá. Loks á Sólbakur eftir 160 tonn, en hann hefur verið á ísfiskveiðum í Barentshafinu. Líklegt er að Oddeyrin taki það sem eftir er af kvóta hans. Önnur skip eiga sama og ekkert eftir. Því ætti þessum veiðum að ljúka í maí.

Íslensku skipin eiga 4.300 tonna kvóta óveiddan innan lögsögu Rússa í Barentshafinu, enn veiðar þar eru ekki byrjaðar. Auk þess geta þau leigt til sín heimildir upp að 2.000 tonnum. Sjö skip sóttu afla í rússnesku lögsöguna í fyrra, samtals 6.760 tonn.

Deila: