Stelpur í tækni í Marel
Marel fékk heimsókn frá stúlkum í 9. bekk Lágafellsskóla þann 27. apríl í tilefni af verkefninu „Stelpur og tækni“ en því er ætlað að vekja athygli stúlkna á tæknigreinum. Háskólinn í Reykjavík, Ský og samtök iðnaðarins standa fyrir viðburðinum í tengslum við „Girls in IT day“ sem haldinn er víða í Evrópu í apríl á hverju ári en Háskólinn í Reykjavík hefur staðið fyrir Stelpur og tækni frá árinu 2014.
Í tilefni dagsins heimsóttu um fjögur hundruð stelpur úr grunnskólum á höfuðborgarsvæðinu og Austurlandi háskólann og nærri 20 tæknifyrirtæki. Markmiðið var að vekja áhuga þeirra á ýmsum möguleikum í tækninámi og störfum, brjóta niður staðalímyndir og sýna þeim fjölbreytileikann sem einkennir tækniiðnaðinn.
Um fjörutíu stelpur kíktu við í Marel og fengu kynningu á fyrirtækinu sem og nýsköpun og hugbúnaði innan fyrirtækisins. Þær skoðuðu jafnframt hina byltingarkenndu FleXicut vatnsskurðarvél sem fjarlægir beinagarð í hvítfiski með röntgentækni auk þess þeim var sýnt nýja vöruþróunarrýmið okkar. Þá spreyttu þær sig einnig á þrautum ásamt því að njóta veitinga.
Að lokum voru stelpurnar leystar út með bókinni Tækifærin eftir mæðgurnar Hjördísi Hugrúnu Sigurðardóttur og Ólöfu Rún Skúladóttur sem fjallar um konur í ýmsum störfum, allt fram frumkvöðlum og forstjórum, vísindamenn, sérfræðinga og ævintýrakonur almennt. Stúlkurnar voru mjög áhugasamar og þökkum við þeim kærlega fyrir komuna.