Fiskur í tómat og feta
Eins og oft áður notum við netið til að sækja okkur uppskrift í soðið. Við vorum með eitthvað einfalt, en gott í huga og fundum þessa fínu uppskrift á slóðinni allskonar.is. Þessi fiskréttur er fljótlegur og einfaldur og alveg frábær með kartöflum og salati eða bara grófu brauði eða hvítlauksbrauði. Hann hentar líka vel fyrir alla aldurshópa og gæti leitt il aukinnar neyslu á fiski, sérstaklega ef þess er gætt að vera með ferskt og gott hráefni: Fiskur í tómat og feta fyrir 4
Innihald:
1 msk olía
1 laukur, fínsaxaður
2 hvítlauksrif, fínsöxuð
1/4 tsk chiliflögur
1 dl vatn
1/ teningur grænmetiskraftur
1 dós hakkaðir tómatar
1 tsk oregano
1 tsk majoram
2 stjörnuanís
góð handfylli steinselja
2 msk basilikka, fersk söxuð
200 gr fetaostur, mulinn
salt og pipar
600gr fiskur
Aðferð:
Settu olíuna í pönnu og steiktu laukinn þar til hann er mjúkur, í um 5 mínútur. Bættu þá við hvítlauk og chiliflögunum og steiktu í um hálfa mínútu. Helltu vatninu út í og settu hálfan grænmetiskraft tening, hrærðu vel þar til teningurinn leysist upp. Settu þá tómatana, oregano, majoram og stjörnuanísinn út í og láttu malla í 10-15 mínútur eða þar til sósan fer að þykkna. Taktu af hitanum og bættu steinseljunni og basilikkunni út í, 2/3 af fetaostinum og smakkaðu til með salti og pipar.
Skerðu fiskinn í bita og raðaðu í eldfast mót. Helltu sósunni yfir fiskinn og myldu afganginn af fetaostinum yfir.
Bakaðu í ofninum í 10-15 mínútur eða þar til fiskurinn er tilbúinn og osturinn er gullinbrúnn.