Skötuselur
Nýkrýndur matreiðslumaður Íslands er höfundur uppskriftarinnar hjá okkur á Kvótanum að þessu sinni. Það er Hafsteinn Ólafsson, sem nú starfar á Sumac Grill veitingastaðnum á Laugavegi. Hann varð fúslega við beiðni okkar um góða uppskrift að fiski og kemur hún hér; sannkallaður veislumatur.
Innihald:
1 lítill skötuselur
Skerið af beini og hreinsið að utan. Skerið í 60 g bita.
Kryddlögur:
10 g fenníkufræ
10 g kóríanderfræ
50 ml olía
börkur af 1 sítrónu, rifinn
börkur af 1 límónu, rifinn
sítrónusafi
Aðferð:
Ristið fenníku- og kóríanderfræ á pönnu. Myljið í matvinnsluvél þar til kryddið er orðið að dufti. Veltið skötuselnum upp úr kryddinu, rifna sítrusberkinum, olíu og sítrónusafa. Látið standa í minnst klukkustund áður en fiskurinn er settur á spjót og grillaður.
Kúrbítur
1 stk. kúrbítur
salt
olía
Skolið kúrbítinn í vatni og skerið niður í sneiðar. Bragðbætið með salti og olíu. Setjið upp á spjót.
Aioli
1 stk. eggjarauða (gerilsneidd)
½ tsk. dijon-sinnep
2 hvítlauksgeirar, bakaðir við160°C í 20 mín.
100 ml. olía
smávegis sítrónusafi
salt
Þeytið eggjarauðurnar með smávegis strónusafa, dijon-sinnepi og hvítlauk. Bætið svo olíunni rólega úti og hrærið vel á meðan. Smakkið til með salti og sítrónusafa.
Sítrónu-vinaigrette
100 g eplaedik
60 g sykur
100 g saltaðar sítrónur
Hitið edik og sykur saman þar til sykurinn er uppleystur, kælið niður. Saxið sítrónurnar smátt og blandið saman við ediklöginn.