Yfir tuttugu túnfiskveiðiskip suður af landinu

Deila:

Á þriðja tug erlendra skipa eru nú á túnfiskveiðum á samningssvæði Norðaustur-Atlantshafs fiskveiðinefndarinnar, NEAFC-svæðinu svonefnda, suður af íslensku lögsögumörkunum. Þetta kom í ljós í eftirlitsflugi flugvélar Landhelgisgæslunnar í síðustu viku.

TF-SIF fór á fimmtudaginn í eftirlits- og gæsluflug um miðin og djúpin suður og suðvestur af landinu. Flogið var út að Reykjaneshrygg, svo til austurs í átt að miðlínu Íslands og Færeyja uns snúið var til norðvesturs og heim á leið.

Alls sáust 22 túnfiskveiðiskip á leiðinni, flest þeirra voru á bilinu 12-100 sjómílur frá lögsögumörkunum. Þorri skipanna er frá Japan en tvö frá Kóreu og eitt skráð frá Spáni. Öll hafa þau tilskilin leyfi til veiðanna.

Túnfiskveiðiskipin eru árvissir gestir á NEAFC-svæðinu þar sem þau hafa, eins og áður segir, heimild til veiða. Landhelgisgæslan fylgist með veiðum þeirra eins og kostur er, meðal annars til að koma í veg fyrir að skip freistist til að elta fisk inn í íslensku lögsöguna.

Deila: