Mjög góð makrílveiði austan við Eyjar

Deila:

Venus NS kom til Vopnafjarðar síðdegis í gær með um 750 tonn af makríl til vinnslu. Mjög góð veiði hefur verið í kantinum út af Reynisdýpi síðustu daga og að sögn skipstjórans, Kristjáns Þorvarðarsonar, er makríllinn stór og átulítill og heldur sig fjarri síldinni.

,,Við vorum komnir á miðin á þriðjudagskvöld og þennan afla, sem hentar mjög vel fyrir vinnsluna á Vopnafirði, fengum við í fjórum holum,“ segir Kristján í samtali við heimasíðu félagsins.

Að sögn skipstjórans er meðalvigtin á makrílnum um 440 grömm.

,,Okkur virtist þessi fiskur vera á leiðinni austur með kantinum en eitthvað skilar sér örugglega vestur með landinu líka. Þá berast fréttir af því að makríll sé byrjaður að veiðast í grænlenskri lögsögu og það er því ekki annað hægt en vera bjartsýnn á framhaldið,“ segir Kristján en hann segir það líka gott að skipunum sé að fjölga á miðunum.

,,Það mun auðvelda okkur leitina. Eyjaskipin eru öll komin á makrílveiðar og Hornfirðingarnir eru byrjaðir. Vilhelm Þorsteinsson EA var á miðunum um líkt leyti og við og Hoffell SU var á leiðinni,“ segir Kristján Þorvarðarson.
 

 

Deila: