Ólíklegt að frumvarpið verði afgreitt – mikil óvissa um strandveiðar

Deila:

Enn hefur ekkert spurst til frumvarps Svandísar Svavarsdóttur matvælaráðherra um strandveiðar. Ráðherra mælti fyrir breytingartillögu á lögum um stjórn fiskveiða þann 23. mars síðastliðinn. Frumvarpinu var vísað til umfjöllunar í atvinnuveganefnd, í kjölfar umræðu. Breytingin kveður á um að aflaheimildum strandveiða verði skipt á milli landssvæða í hlutfalli við fjölda skráðra báta á hverju svæði.

Samkvæmt heimildum Auðlindarinnar var Svandís í síðustu viku þeirrar skoðunar að meiri líkur en minni væru á því að frumvarpið yrði afgreitt í tæka tíð. Heimildir innan úr þinginu í dag herma hins vegar að umfjöllun um frumvarpið sé ekki hafin í atvinnuveganefnd. Þingmaður segir við heimildina að afar ólíklegt sé því að frumvarpið verði afgreitt úr nefndinni í tæka tíð fyrir strandveiðar. Frumvarpið verði í fyrsta lagi samþykkt seint í maí eða í byrjun júní. Þá verða strandveiðar löngu hafnar. Allt bendir þess vegna til þess að fyrirkomulag strandveiða verði óbreytt í sumar.

Undanfarin ár hefur aflaheimildum ekki verið skipt á milli svæða, sem hefur haft í för með sér að sjómenn á Vesturlandi hafa borið meira úr býtum en aðrir. Besti tíminn er snemmsumars á vestanverðu landinu en síðsumars fyrir austan. Í fyrra voru strandveiðar stöðvaðar á miðju sumri, þegar úthlutuðum heildarafla til strandveiða hafði verið náð.

Breytingin er mikið hagsmunamál fyrir smábátasjómenn á Norður- og Austurlandi en Landssamband smábátaeigenda hefur sett sig upp á móti frumvarpinu.

Strandveiðar hefjast, ef að líkum lætur, eftir 13 daga, þegar ráðherra hefur lagt fram reglugerð þar að lútandi, en lagaheimild þarf til að gera þær breytingar sem boðaðar eru í frumvarpinu. Óvissa um fyrirkomulag veiðanna er því mikil.

Strandveiðar njóta víðtæks stuðnings almennings, samkvæmt skoðanakönnun Félagsvísindastofnunar HÍ, sem birt var í vikunni og unnin var fyrir verkefni Matvælaráðuneytisins, Auðlindin okkar. Alls 72,3% þátttakenda í könnuninni vilja að hærra hlutfall heildarkvóta renni til strandveiða. Aðeins 6,1% telja að hlutfallið eigi að vera lægra en það er nú.

Fiskistofa greindi í gær frá því að umsóknir um strandveiðileyfi fari nú fram í gegn um stafræna umsóknargátt á island.is. Þar var áréttað að Fiskistofu væru einingis heimilt að veita útgerð eða eiganda fiskiskips leyfi til strandveiða fyrir eitt skip.

„Áður en Fiskistofa veitir strandveiðileyfi þarf því að ganga úr skugga um að enginn eigandi eða útgerðaraðili lögaðilans eigi aðild að nema einu strandveiðileyfi. Fiskistofa styðst við opinberar upplýsingar um eigendur og útgerðaraðila skipa hjá Fiskistofu, Samgöngustofu og skráningu raunverulegra eigenda lögaðila hjá Fyrirtækjaskrá Skattsins. Þeir sem hyggjast sækja um strandveiðileyfi eru hvattir til að huga að því að opinberar skráningar á eignarhaldi og útgerðaraðild skips séu réttar.” Þetta bendir til þess að reglum um eignarhald betur fylgt eftir en áður. Borið hefur á því að menn hafi gert út fleiri en einn bát.

Deila: