Erfiðast að segja upp fólki
Breiðfirðingurinn Magnús Bæringsson er maður vikunnar á Kvótanum í dag. Hann er að segja má fæddur og uppalinn í sjávarútveginum og byrjaði ungur í saltfiski hjá föður sínum. Nú er hann framleiðslustjóri hjá Agustson í Stykkishólmi.
Nafn?
Magnús Ingi Bæringsson.
Hvaðan ertu?
Breiðfirðingur, Snæfellingur og Hólmari í gegn.
Fjölskylduhagir?
Kvæntur Bjarndísi Emilsdóttur og eigum við þrjú börn.
Hvar starfar þú núna?
Ég starfa hjá Agustson í Stykkishólmi, sem framleiðslustjóri og fl.
Hvenær hófst þú vinnu við sjávarútveg?
12 til 13 ára byrjaði ég í saltfiski hjá föður mínum Bæring Guðmumundssyni.
Hvað er það skemmtilegasta við að vinna við íslenskan sjávarútveg?
Fjölbreytileikinn. Alltaf eitthvað nýtt til að takast á við og svo spennandi tarnir eins og gengur og gerist í sjávarútveginum.
En það erfiðasta?
Erfiðast er að þurfa að segja upp fólki. Það heldur fyrir mér vöku, hitt leysir maður.
Hvað er það skrýtnasta sem þú hefur lent í í störfum þínum?
Að eiga við skýtið fólk
Hver eftirminnilegasti vinnufélagi þinn?
Sem strákur í saltfiskinum hjá pabba vann maður mikið með eldra fólki sem var að segja manni til, meira að segja með afa mínum. Það var mjög mótandi tími fyrir mig og leiddi til þess að ég valdi mér starfsvettvang í sjávarútveginum og menntaði mig til þess. Úr starfi mínu hjá Agustson er Guðmundur Gunnarsson, sem er nú fallinn frá, mér mjög minnisstæður. Hann kenndi mér mikið meðal annars á lyftara. Svo er það öðlingurinn Ellert Kristinsson, sem hætti hjá fyrirtækinu í fyrra eftir langan og farsælan feril. Hann kenndi mér mikið og mótaði mig í starfi.
Hver eru áhugamál þín?
Að sinna fjölskyldunni þegar tími gefst til þess. Krakkarnir eru til dæmis mikið í íþróttum og ég fer oft með þeim í keppnisferðir
Hver er uppáhaldsmaturinn þinn?
Bara nánast allur fiskur.
Hvert færir þú í draumfríið?
Það er úti í Þorvaldsey á Breiðafirði.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason