Meiri afli en lægra fiskverð

Deila:

Á árinu 2016 drógust tekjur í sjávarútvegi saman um 25 milljarða eða 9% og EBITDA lækkaði um 15 milljarða eða 22%. Afkoma botnfisksútgerða og vinnslu versnaði mest á milli ára. Á árunum 2016 og 2017 þróuðust ytri hagstærðir almennt með neikvæðum hætti fyrir sjávarútvegsfélög. Verðlag sjávarútvegsafurða lækkaði verulega í íslenskum krónum og launavísitalan hækkaði.

Þetta eru helstu niðurstöður áfangaskýrslu Delotte um rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Skýrslan var unnin að beiðni sjávarútvegsráðherra og formanns Atvinnuveganefndar. Þau ákváðu í sumarbyrjun að gerð skyldi úttekt á rekstrarstöðu fyrirtækja í sjávarútvegi. Þar skyldi m.a. horft sérstaklega til þess hvaða áhrif styrking krónunnar og sjómannaverkfallið hefðu haft og áhrifin á virðiskeðju sjávarútvegsins skoðuð sérstaklega.

Lykilniðurstöður

  • Tekjur í sjávarútvegi drógust saman um 25 ma.kr. eða 9% árið 2016. Tekjutapinu var þó að hluta mætt með lækkun kostnaðar og lækkaði EBITDA um 15 ma.kr. eða 22%.
  • Afkoma sjávarútvegs versnaði milli ára óháð úthlutuðum afla. Stærri félög virðast þó eiga auðveldara með að ná fram kostnaðarsparnaði á móti tekjusamdrætti.
  • Afkoma botnfiskútgerða og vinnslu versnaði mest milli ára en félög í botnfiskútgerð urðu af mestu tekjunum. Afkoma og tekjur lækkuðu í öllum flokkum milli ára. Aðeins lítill hluti heildarfjölda fyrirtækja með aflaheimildir undir 1.000 þíg.tonn eru hins vegar í úrtakinu.
  • Greining Deloitte sýnir að allar líkur eru á að afkoma versni enn nokkuð á núverandi rekstrarári. Takist að veiða þann afla sem ekki veiddist í verkfallsmánuðum gæti afkoma aukist lítið eitt milli ára.• Á því tímabili sem var til skoðunar þróuðust ytri hagstærðir almennt með neikvæðum hætti fyrir sjávarútvegsfélög. Verðlag sjávarafurða hefur lækkað verulega í íslenskum krónum og launavísitala hefur hækkað töluvert. Lækkun olíuverðs hafði nokkuð jákvæð áhrif á afkomu ársins 2016 en á árinu 2017 hefur olíuverð tekið að hækka að nýju.

Magn eykst en verð lækkar

  • Á fyrstu átta mánuðum þessa árs er veitt magn orðið tæplega 7% meira en 2016. Munar þar mestu um auknar veiðar á loðnu samanborið við síðasta ár.
  • Á nýliðnu fiskveiðiári jukust aflaheimildir um 22% samanborið við fiskveiðiárið 15/16. Afli til aflamarks stóð hins vegar því sem næst í stað milli ára. Eitthvað af því sem ekki veiddist flyst á það fiskveiðiár sem nú er hafið en ólíklegt má teljast að verkfallsáhrifum verði að fullu eytt innan rekstrarársins 2017.
  • Meðalverð á sjávarafurðum lækkaði talsvert milli ára í íslenskum krónum eða um 8,5% þrátt fyrir hækkun í erlendri mynt.
  • Tekjuspá byggir á þeirri forsendu að verð sjávarafurða þróist í takt við GVT að svo miklu leyti sem forsendur liggja fyrir um þróun hennar. Frá þeim tíma er reiknað með að vísitalan standi í stað til ársloka. Sýndar eru tvær sviðsmyndir vegna magnþróunar, annars vegar er gert ráð fyrir að aukning verði í takt við þróun fyrstu 8 mánuði ársins og hins vegar að hún verði í takt við aflaheimildaaukningu milli fiskveiðiáranna 2015/16 og 2016/17. Líklegt er að afkoman verði innan þessa bils.
  • Ljósmynd Hjörtur Gíslason
Deila: