Vilja draga úr umframafla á strandveiðum
40 milljónir króna runnu í ríkissjóð á síðasta ári vegna umframafla báta á strandveiðum. Ekki má veiða meira en sem samsvarar 650 kg, í þorskígildum talið, af kvótabundnum tegundum í hverri veiðiferð á strandveiðum. Strandveiðar þessa sumars hefjast í dag.
„Á undanförnum árum hefur borið á því að nokkuð er um að menn veiði umfram þetta hámark. Endurgreiða þarf andvirði umframaflans í ríkissjóð en sá afli sem um ræðir dregst engu að síður frá þeim afla sem er til skiptanna á veiðunum. Fyrir vikið runnu tæpar 40 milljónir króna í ríkissjóð í fyrra sem ella hefðu farið í vasa strandveiðimanna. Fiskistofa hvetur strandveiðimenn til að gæta sem best að því að veiða ekki umframafla. Í sumar verður tekið upp það nýmæli að listi yfir þá báta sem veiða mest umfram verður birtur í hverjum mánuði á vef Fiskistofu,“ segir í frétt á heimasíðu Fiskistofu.
Á tímabilinu maí, júní, júlí og ágúst er heimilt að veiða á handfæri allt að 9.200 lestir af óslægðum botnfiski á strandveiðum. Sá afli reiknast ekki til aflamarks eða krókaaflamarks þeirra fiskiskipa sem stunda veiðarnar.
Landinu er skipt í fjögur veiðisvæði. Leyfi til strandveiða eru veitt á því svæði þar sem heimilisfesti útgerðaraðila viðkomandi báts er skráð og eingöngu er heimilt að landa afla innan þess landsvæðis á veiðitímabilinu. Aflamagn er háð takmörkunum fyrir hvert landsvæði innan hvers mánaðar. Sé heimildin ekki fullnýtt flyst heimildin á milli mánaða, allt til ágústloka. Í reglugerð 322/2017 um strandveiðar fiskveiðiárið 2016/2017 er veiðisvæðum og magni á hverjum tímabili skipt svo:
- Svæði A: Eyja- og Miklaholtshreppur til Súðavíkurhrepps. Í hlut þess koma 852 tonn í maí, 1.023 tonn í júní, 1.023 tonn í júlí og 512 tonn í ágúst.
- Svæði B: Strandabyggð til Grýtubakkahrepps. Í hlut þess koma 521 tonn í maí, 626 tonn í júní, 626 tonn í júlí og 313 tonn í ágúst.
- Svæði C: Þingeyjarsveit til Djúpavogshrepps. Í hlut þess koma 551 tonn í maí, 661 tonn í júní, 661 tonn í júlí og 331 tonn í ágúst.
- Svæði D: Sveitarfélagið Hornafjörður til Borgarbyggðar. Í hlut þess koma 600 tonn í maí, 525 tonn í júní, 225 tonn í júlí og 150 tonn í ágúst.