Fiskeldið hefur þegar haft mikil áhrif

Deila:

Fiskeldi hefur þegar haft mikil áhrif á sunnanverðum Vestfjörðum, í sveitarfélögum sem áður höfðu háð þunga varnarbaráttu. Komi til aukins fiskeldis mun það leiða til verulegrar fólksfjölgunar í viðkomandi byggðum sem aftur kallar á afleiddar framkvæmdir s.s. íbúðabyggingar og til styrkingar innviða.

Um þetta er fjallað í nýrri skýrslu þróunarsviðs Byggðastofnunar um byggðaleg áhrif fiskeldis. Í Tálknafjarðarhreppi byggja 16 fjölskyldur afkomu sína á fiskeldi, að því er segir í skýrslunni. Níu af þeim eru með samtals 19 börn á grunnskólaaldri en í leik- og grunnskóla Tálknafjarðar eru samtals 56 börn. Í Tálknafjarðarhreppi byggja 16 fjölskyldur afkomu sína á fiskeldi, að því er segir í skýrslunni. Níu af þeim eru með samtals 19 börn á grunnskólaaldri en í leik- og grunnskóla Tálknafjarðar eru samtals 56 börn. Í sveitarfélaginu er fyrirhugað að byggja upp hitaveitu sem lækka mun húshitunarkostnað á staðnum.

Fiskvinnsla Þórsbergs ehf. á Tálknafirði lokaði haustið 2015 og töpuðust við það yfir 40 störf. Hefði laxeldið ekki komið til væri staða sveitarfélagsins mun lakari en hún er. Í Vesturbyggð er atvinnustig nokkuð hátt og störfum hefur fjölgað mikið en í stærsta fiskeldisfyrirtækinu í Vesturbyggð starfa nú um 100 manns. Um er að ræða fjölbreytt störf, heilsársstörf bæði á sjó og í landi. Í skýrslunni er sérstaklega tekið fram að störfum háskólamenntaðra, kvenna og störfum millistjórnenda hefur fjölgað.

Í skýrslunni er rakið að Vestfirðir hafa búið við mikla fólksfækkun undanfarin ár og áratugi. Framundan eru miklar breytingar á norðan- og sunnanverðum Vestfjörðum, gangi áætlanir um um sjókvíaeldi eftir, og skýrsluhöfundar segja að í raun fari svæðin þá úr nokkuð samfelldu samdráttarferli í uppbyggingar- og þensluferli með umtalsverðri fjölgun íbúa, byggingu íbúðarhúsnæðis og annarri uppbyggingu sem fylgir fólksfjölgun og breyttri aldurssamsetningu. Hvar áhrifin verða mest ræðst að miklu leyti af því hvar helstu starfsstöðvar fyrirtækjanna verða. Í þessu ferli mun reyna mikið á stjórnsýslu og innviði sveitarfélaganna á svæðinu. Að mati skýrsluhöfunda er stærsta áskorunin á Vestfjörðum að útvega nægilegt íbúðarhúsnæði handa nýjum íbúum og halda uppi þjónustustigi.

Mynd og texti af bb.is

 

Deila: