Mokveiði í Smugunni
Nú er mjög góð makrílveiði í Smugunni. Skipin eru gjarnan að hífa 300 tonn eftir að hafa dregið skamman tíma. Það heyrir einnig til tíðinda að norskur bátur fékk þar 900 tonn af makríl í nót í gær.
Börkur NK kom til Neskaupstaðar í gærkvöldi með 640 tonn og hófst strax vinnsla í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Aflinn er heilfrystur að miklu leyti. Í kjölfar Barkar verður unninn afli úr Bjarna Ólafssyni AK sem er á landleið með tæplega 700 tonn. Beitir NK hefur verið að fá mjög góðan afla að undanförnu og er lagður af stað til Neskaupstaðar með 1.310 tonn sem fengust í aðeins fjórum holum. Aflinn úr Beiti verður unninn strax og vinnslu afla úr Bjarna Ólafssyni lýkur.
Á myndinni er Beitir NK á landleið úr Smugunni með 1.310 tonn af makríl.
Ljósm. Helgi Freyr Ólafsson