Leggja til afnám endurvigtunar og aukinn vs-afla

Deila:

Samtök fiskframleiðenda og útflytjenda (SFÚ) telja í samþykkt sinni að besta leiðin til að draga úr brottkasti sé að auka svokallaðan vs-afla. Þá leggur stjórnin til að leyfi til endurvigtunar afla verði afnumin og stuðst við fasta ísprósentur eftir eðli veiða.

Þessi umsögn er komin  fram vegna frumvarps til laga um breytingu á lögum nr. 57/1996 um umgengni um nytjastofna sjávar. (rafræn vöktun, eftirlit með vigtun, fjarstýrð loftför o.fl.) vill stjórn SFÚ koma eftirfarandi á framfæri. Umsögn FSÚ er svoh ljóðandi:

„Umrætt frumvarp lýtur að því að fækka brotum á viðkomandi lögum.

Brotin hafa eins og dæmin sanna aðallega snúið að tveimur þáttum;

  • Brottkast afla í fiskiskipum
  • Brot á lögum um endurvigtun afla.

Í umræðu um þessi lög og umrædd brot á þeim hefur verið einblínt á hert eftirlit. Lítið virðist vera horft til annarra möguleika. Jafnvel hreinlega horft fram hjá stórkostlegum viðbótarkostnaði sem fylgt getur.

Stjórn SFÚ vill benda á tvö atriði í þessu samhengi sem gætu orðið til mikillar einföldunar og minnkað þörfina á auknu eftirliti.

Varðandi brottkast

Árið 2012 var sett reglugerð 698/2012. Í 9.grein hennar er fjallað um svokallaðan vs. afla, sem heimilaði útgerðum að koma með allt að 5% afla að landi án þess að afla veiðiheimilda fyrir honum, með því skilyrði að hann yrði seldur á fiskmarkaði og 80% söluverðsins rynnu í Verkefnasjóð sjávarútvegsins. Reglugerðinni var ætlað að minnka brottkast afla. Skemmst er frá því að segja að umrædd reglugerð hefur, samkvæmt rannsóknum, stórlega minnkað brottkast verðlítils afla. Hún hefur þannig sannað tilgang sinn. Stjórn SFÚ telur að mun vænlegra væri að breyta umræddri reglugerð á þann veg að stórauka umrædda heimild. Líkur á að það myndi minnka brottkast hljóta að teljast verulegar.

Varðandi endurvigtun afla

Leyfi til endurvigtunar afla er veitt til þrenns konar aðila;

  • Þeirra sem landa hjá sjálfum sér, (selja sjálfum sér afla).
  • Þeirra sem landa hjá öðrum, (sá sem kaupir vigtar aflann).
  • Þriðja aðila, (hvorki kaupandi né seljandi heldur hlutlaus aðili eins og fiskmarkaður)

Í tilfelli 1 og 2 liggur fyrir að um verulegan freistnivanda er að ræða enda stjórnar vigt afla nær öllum kostnaðarliðum tengdum vinnslunni og útgerðinni. Stjórn SFÚ er það til efs að aukið eftirlit minnki vandann, ljóst er að freistnivandinn verður sá sami. Nærtækara væri að viti stjórnar SFÚ að einfalda kerfið til muna og leggja af endurvigtun afla. Stjórnvöldum er í lófa lagið að setja á fastar ísprósentur byggðar á rannsóknum um ísþörf hverrar veiðitegundar. (dagróðrar, útileguróðrar, sumar, vetur o.s.frv). Líkt og með vs.-aflann myndi með þessu móti á einfaldan máta nást fram gríðarlegur sparnaður í eftirlitskostnaði og ljóst að freistnivandinn væri ekki fyrir hendi.”

 

 

Deila: