Rúmlega þúsund tonn af síld í fimm köstum

Deila:

Víkingur AK kom til Vopnafjarðar í gærkvöldi með um 1.040 tonn af síld. Aflinn fékkst í fimm köstum í færeysku lögsögunni, 40 til 65 sjómílur austur af miðlínunni milli Íslands og Færeyja.

,,Við fórum frá Vopnafirði í skítabrælu sl. laugardag en veðrið var gengið niður þegar við komum á veiðisvæðið og við fengum besta veður á miðunum,“ segir Albert Sveinsson, skipstjóri á Víkingi í samtali á heimasíðu HB Granda.
Að sögn Alberts höfðu engar fréttir borist af síldveiði í íslenskri lögsögu í nokkra daga og því var ákveðið að fara í færeysku lögsöguna þar sem vitað var um veiði.
,,Brælan gerði það hins vegar að verkum að lítið var reynt í íslensku landhelginni frá því í lok síðustu viku og það var bara núna á heimstíminu að við fréttum af ágætum síldarafla Íslands megin við línuna. Nokkur skip fengu góðan afla beint austur af Reyðarfirði og þar var greinilega eitthvað magn á ferðinni,“ segir Albert en hann upplýsir að svo virðist sem að síldin í færeysku lögsögunni sé á austurleið.
,,Það voru hins vegar engin skip að veiðum í Síldarsmugunni þessa daga. Það fóru einhver færeysk skip til að skoða ástandið en þeim leist ekkert á veiðimöguleikana. Hvað verður er ómögulegt að segja. Ætli við munum ekki eiga eftir um 3.000 tonn af kvótanum þegar Venus NS kemur í land og ég reikna með að við förum eftir því magni áður en kolmunnaveiðar hefjast. Hvað við tekur eftir að kolmunnaveiðunum lýkur veltur á því hvort loðna finnist í nægilega miklu magni í rannsóknaleiðöngrum á næstunni. Við bíðum og sjáum hvað setur,“ segir Albert Sveinsson.

Deila: