Börkur með 1.200 tonn af feitri og flottri síld

Deila:

Börkur NK kom til Neskaupstaðar í morgun með 1.200 tonn af síld. Síldin er öll unnin í fiskiðjuveri Síldarvinnslunnar. Hjörvar Hjálmarsson skipstjóri segir að veiðiferðin hafi gengið vel.

„Við fengum aflann í fimm holum austur undir miðlínu á milli Færeyja og Íslands, um 140 mílur austur af Norðfirði. Aflinn var 200 tonn í fyrstu þremur holunum, 400 tonn í því fjórða og 200 tonn í því fimmta en þá var einungis dregið í 25 mínútur. Það virtist vera síld á stóru svæði þegar við komum þarna og í gær mátti sjá stóra síldarflekki sem gáfu vel. Síldin er feit og flott og afar góð í alla staði,“ sagði Hjörvar í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Beitir NK er á síldarmiðunum en Bjarni Ólafsson AK er að kolmunnaveiðum. Bjarni Ólafsson var að hefja veiðar út af Seyðisfjarðardýpi í morgun.
Á myndinni er Börkur NK á síldarmiðunum. Ljósm. Guadalupe Laiz

 

Deila: