Verð íslenskra sjávarafurða í sögulegu hámarki

Deila:

Verð sjávarafurða hefur hækkað töluvert á þessu ári mælt í erlendri mynt og hefur hækkunin verið töluvert umfram hækkun almenns verðlags erlendis. Hækkunin á þriðja ársfjórðungi nam 9,3% milli ára og er það mesta hækkun á 12 mánaða grundvelli síðan á öðrum fjórðungi 2015, þegar verðið hækkaði um 13,3%. Þetta er niðurstaða hagsjár Landsbanka Íslands, sem fer hér á eftir:

Á fyrstu þremur fjórðungum ársins var verðið að 8,2% hærra en á sama tímabili í fyrra. Til samanburðar hækkaði verðvísitala Matvælastofnunar Sameinuðu þjóðanna á kjöti um 2,5% milli sömu tímabila. Litið yfir lengra tímabil hefur verð íslenskra sjávarafurða hækkað meira en heimsmarkaðsverð á kjöti. Þannig nemur hækkun verðs á íslenskum sjávarafurðum um 50% frá árinu 2010 en verðhækkun á kjöti nemur á sama tímabili 20%. Hér er þó rétt að benda á að útflutningur á íslenskum sjávarafurðum fer ekki allur beint til manneldis og má þar nefna mjöl sem er m.a. notað sem fóður í fiskeldi.

Útflutningsverðmæti sjávarafurða eykst þrátt fyrir loðnubrest

Útflutningsverðmæti sjávarafurða nam 192 mö.kr. á fyrstu þremur fjórðungum ársins borið saman við 171,6 ma.kr. á sama tímabil í fyrra og nemur aukningin 11,9%. Aukið útflutningsverðmæti skýrist að töluverðu leyti af veikingu krónunnar milli ára en gengisvísitala krónunnar á fyrstu þremur fjórðungum ársins var 11,7% hærri en á sama tímabili í fyrra. Mælt á föstu gengi krónunnar nam aukning útflutningsverðmætis um 0,2% milli ára.

Lítil aukning útflutningsverðmætis þrátt fyrir hækkun afurðaverðs í erlendri mynt skýrist fyrst og fremst af loðnubresti en engar veiðar voru heimilar á síðustu vertíð. Útflutningsverðmæti loðnu dróst saman um 10,2 ma.kr. á föstu gengi krónunnar en litið framhjá áhrifum loðnuútflutnings jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða um 6%. Á gengi hvers tíma jókst útflutningsverðmæti sjávarafurða, litið framhjá loðnuútflutningi, um tæpa 30 ma.kr., eða 18,4%. Litið framhjá þeim útgerðum sem gera út á loðnu má ætla að margar útgerðir hafi því upplifað mikinn tekjuauka milli ára í krónum talið.

Mesta verðhækkunin á loðnu

Sé útflutningur sjávarafurða niður á tegundir settur á fast gengi og fast magn í tonnum talið má fá grófa mynd af verðhækkun einstakra tegunda í erlendri mynt milli ára. 1 Sé litið til þeirra 20 tegunda sem skiluðu mestu útflutningsverðmæti á þessu ári sést að langmesta verðhækkun í erlendri mynt mælist í loðnu. Hækkunin nemur 114% milli ára. Þetta er líklega töluvert ofmat og þarf því að taka þessari niðurstöðu með verulegum fyrirvara. Ástæðan er sú að líklegt er að hærra hlutfall hrogna sé í útflutningi þessa árs en í fyrra en hrogn gefa mun hærra verð en mjöl. Hlutfall hrogna í útflutningi loðnu hefur fylgst að við magn veiða í gegnum tíðina. Þeim mun meiri veiðar, þeim mun hlutfallslega lægra hlutfall af aflanum hefur verið nýttur í hrognatöku.

Næstmesta verðhækkunin á humri

Næstmesta hækkunin var í humri sem hækkaði um tæp 30%. Ekki er ólíklegt að verðhækkunina megi að hluta rekja til minna framboðs af humri en veiðar voru 64% minni í tonnum talið á fyrstu 9 mánuðum ársins borið saman við sama tímabil í fyrra. Humarstofninn hefur verið í lægð og hafa veiðar verið bannaðar m.a. í Jökuldjúpi og Lónsdjúpi til verndar á ungviði humars. Þriðja mesta hækkunin var í Skarkola, eða 20%. Verðhækkun á langmikilvægasta fiskistofninum, þorskinum, nam 7,1% milli ára. Verð á ýsu hækkaði um 1%, ufsa um 4,6% og karfa 13,3%.

Deila: