Keyra bíl á þangi!

Deila:

Matís er þáttakandi í verkefninu Macrofuels (H2020 #654010) sem nú er að renna sitt fjögurra ára skeið á enda. Verkefninu var ætlað að kanna fýsileika á nýtingu sjávarþangs til framleiðslu eldsneytis fyrir ökutæki og náði til allra þátta slíkrar framleiðslu: ræktunar þangs; geymslu; forvinnslu til losunar gerjanlegra sykra; gerjunar til framleiðslu líf-eldsneytis; og prófunar eldsneytis í bílvél.

Nú í nóvember var mikilvægum áfanga verkefnisins náð þegar fólksbíl var ekið á eldsneytis-blöndu sem framleidd var með gerjun sjávarþangs. Tíu lítrar af líf-etanóli, sem framleiddir voru á vegum Macrofuels, voru blandaðir 90 lítrum af bensíni og ökutæki keyrt á blöndunni um 80 km leið. Efnainnihald útblásturs var mælt og fylgst með hugsanlegum áhrifum á gang vélarinnar. Allar mælingar sýndu að eiginleikar eldsneytisins eru sambærilegir hefðbundnu eldsneyti.

Hitakærar örverur, einangraðar úr íslenskum hverum, hafa um langt skeið verið rannsakaðar hjá Matís. Fjöldi, nálægð og fjölbreytileiki íslenskra hvera er einstakur, og örverurnar sem þar finnast og ensímin sem þær framleiða eru oft aðlagaðar háu hitastigi og mjög lágu sýrustigi. Þetta eru sömu aðstæður og ríkja oft á tíðum í iðnaðar vinnslu á lífmassa og henta þær (og ensím þeirra) því mjög vel fyrir slíka nýtingu. Þátttaka Matís innan Macrofuels fólst í að þróa þessar örverur og ensím þeirra með það að markmiði að hámarka framleiðslu eldsneytis úr sjávarþangi. Sjávarþang sem nýtt var til eldsneytis framleiðslu í Macrofuels inniheldur þrennskonar sykrur (alginat, laminarin og mannitol). Gersveppur, sem alla jafna er notaður til líf-etanól framleiðslu, er einungis fær um að nýta eina þessara þriggja sykra. Matís þróaði hitakæran bakteríu-stofn sem nýtir allar þrjár sykrur þangsins, með það fyrir augum að auka heimtur við framleiðsluna til muna. Ensímin sem Matís þróaði kljúfa fjölsykrur þangs í fá- og einsykrur. Slík forvinnsla er nauðsynleg til að gerja megi sykrurnar og framleiða líf-eldsneyti.

Samanborið við aðrar tegundir lífmassa er sjávarþang mjög hentugt til framleiðslu eldsneytis. Þang vex hraðast allra plantna við norðlægar slóðir, ræktun þess keppir ekki við matarframleiðslu um ræktarland, og það inniheldur hátt hlutfall gerjanlegra sykra. Sífellt aukin áhersla er á notkun líf-eldsneytis og annarra sjálfbærra orkugjafa í stað jarðefnaeldsneytis um allan heim. Niðurstöður Macrofuels verkefnisins benda til að hægt sé að framleiða líf-etanól úr sjávarþangi sem hefur sömu eiginleika og hefðbundið eldsneyti.

Þang vex í miklu magni á Íslandi en það er ekki hagnýtt nema að litlu leyti. Til að efla þangvinnslu á Íslandi er mikilvægt að þróa afleiddar vörur sem skapa má úr þanginu. Það kynni að leiða til aukinnar verðmætasköpunar og eflingar atvinnulífs, einkum á landsbyggð Íslands. Þróunarverkefni eins og Macrofuels og þátttaka Matís er skref í þessa átt.

 

Deila: