Börkur á hrossamakríl við Máritaníu

Deila:

Í tilefni af því að Síldarvinnslan verður 60 ára hinn 11. desember nk. birtast pistlar um sögu fyrirtækisins á heimasíðunni af og til út árið. Hér er fjallað um hrossamakrílveiðar Barkar við strendur norðvestur Afríku síðla árs 1975.

Síldarvinnslan festi kaup á uppsjávarskipinu Berki árið 1973. Skipið þótti óhemju stórt en því var fyrst og fremst ætlað að leggja stund á loðnu- og kolmunnaveiðar í þeim tilgangi að tryggja fiskimjölsverksmiðju fyrirtækisins í Neskaupstað hráefni.

Erfiðlega gekk að finna næg verkefni fyrir þetta stóra skip fyrstu árin og stóð til að selja það úr landi vorið 1976. Af sölunni varð þó ekki einkum vegna þess að einmitt á þessu ári hófust sumar- og haustveiðar á loðnu út af Norðurlandi og Vestfjörðum.

Á þeim árum, þegar leitað var verkefna fyrir Börk, var ýmislegt reynt fyrir utan hefðbundnar loðnuveiðar og tilraunir til kolmunnaveiða. Börkur lagði til dæmis stund á síld- og makrílveiðar í Norðursjó frá vori og fram á sumar 1975 og að þeim loknum hélt hann til loðnuveiða í Barentshafi þar sem fengust 8.000 tonn á sjö vikum.

Um haustið hélt Börkur síðan til veiða á hrossamakríl undan ströndum norðvestur Afríku. Þessar Afríkuveiðar eru áhugaverðar ekki síst vegna þess að aldrei hefur norðfirskt skip haldið til veiða á jafn fjarlæg mið. Makrílveiðin við Afríkustrendur gekk illa og varð afli Barkar sáralítill en honum var landað um borð í bræðsluskipið Norglobal sem fylgdi nokkrum veiðiskipum á þessar fjarlægu slóðir. Íslensku veiðiskipin sem freistuðu þess að fanga hrossamakríl við Afríku á þessum tíma ásamt Berki voru Sigurður, Reykjaborg, Ásgeir, Ásberg, Óskar Halldórsson og Guðmundur. Auk íslensku skipanna var þarna töluverður floti frá Sovétríkjunum, Norður-Kóreu og Japan.

 

Magnús Jóhannsson háseti faðmar  sleggjuhákarl sem kom í nótina.  Hjá honum stendur Axel Magnússon kokkur.

Magnús Jóhannsson háseti faðmar
sleggjuhákarl sem kom í nótina.
Hjá honum stendur Axel Magnússon kokkur.

Þegar siglt var áleiðis til Afríku voru Barkarmenn bjartsýnir. Um borð var nót sem hafði verið dýpkuð heil reiðinnar býsn og mun hafa verið orðin 127 faðma djúp. Þessi stóra nót hlyti að duga vel til að fanga sprellfjörugan Afríkumakríl.

Börkur kastaði fyrst á mikla hrossamakríltorfu 2. nóvember. Kastið var ágætt en nótin reyndist allt of veikbyggð. Hún rifnaði mikið og einungis náðust 40-50 tonn. Daginn eftir var kastað á ný en allt fór á sömu leið.

Fljótlega áttuðu menn sig á því að nótin hentaði alls ekki til veiðanna og því var ráðist í að grynnka hana og breyta henni í þeirri von að hún myndi þá henta betur. Tryggvi Vilmundarson netagerðarmeistari var háseti á Berki á þessum tíma og stjórnaði hann verkinu.

Að loknum fyrstu dögunum á miðunum fannst lítið af makríl auk þess sem nótarvesenið hélt áfram þrátt fyrir breytingarnar á nótinni. Alls fengust 1.500-1.600 tonn af hrossamakríl á meðan Börkur var á þessum fjarlægu miðum. Veitt var 20-30 mílur frá ströndum Máritaníu og var yfirleitt landsýn.

Þegar ekki var verið að veiðum var gjarnan verið í sólbaði.  Talið frá vinstri: Axel Magnússon, Tryggvi Vilmundarson,  Sverrir Guðlaugur Ásgeirsson, Þórður Þórðarson og Finnur Þórðarson.

Þegar ekki var verið að veiðum var gjarnan verið í sólbaði. Talið frá vinstri: Axel Magnússon, Tryggvi Vilmundarson,
Sverrir Guðlaugur Ásgeirsson, Þórður Þórðarson og Finnur Þórðarson.

Öllum aflanum var landað um borð í bræðsluskipið Norglobal og var ætlast til að landað væri daglega. Ef löndun dróst varð fljótlega ekkert eftir nema beinin af makrílnum, hitt varð að vatnskenndri drullu í hitanum og nýttist ekki. Þegar á leið fengu Barkarmenn litla nót um borð í bræðsluskipinu og reyndu um tíma að veiða sardínellu, en þær veiðar skiluðu einnig heldur litlum árangri.

Margar fisktegundir komu í nót Barkar á Afríkumiðum og reyndar hin furðulegustu kvikindi. Líklega var um að ræða hátt í 40 tegundir; fiskar af ýmsum stærðum og allt upp í hákarla, meðal annars fékkst einu sinni sleggjuhákarl.

Samskipti við innfædda voru í lágmarki. Aldrei var siglt til hafnar í Máritaníu og aðeins einu sinni sáu Barkarmenn framan í Máritaníumenn. Þá var verið að veiðum á hefðbundinni veiðislóð þegar strandgæslubátur birtist fyrirvaralaust. Komu strandgæslumennirnir um borð og skoðuðu veiðarfærin. Börkur hafði einungis leyfi til nótaveiða en aftur á skipinu var troll á tromlu. Gerð var krafa um að trollið væri tekið af tromlunni og því komið fyrir í geymslu í skipinu.

Á meðan á Afríkuúthaldinu stóð fór Börkur í tvígang til Las Palmas á Kanaríeyjum. Í fyrra skiptið vegna mannaskipta og í síðara skiptið áður en siglt var heim. Ekki fékkst heimild til að leggjast að bryggju því Börkur hafði ekki skírteini sem staðfesti að skipið væri laust við rottur. Þetta þótti Barkarmönnum sérkennilegt því þeir voru fluttir í land á báti og sáu þá að í höfninni lágu alls konar dallar og í sumum þeirra var heilmikill rottugangur. Eins og gengur og gerist skiptist áhöfnin í tvennt þegar í land var komið; sumir fóru að versla og skoða sig um en aðrir fóru á fyllerí enda fékkst mjöðurinn á býsna hagstæðu verði.

Sigurjón Ingvarsson háseti um borð í  Berki á legunni í Las Palmas á Kanarí.  Í baksýn er rússneskur verksmiðjutogari.

Sigurjón Ingvarsson háseti um borð í
Berki á legunni í Las Palmas á Kanarí.
Í baksýn er rússneskur verksmiðjutogari.

Sjálfsagt halda lesendur að vistin við Máritaníustrendur hafi verið heldur daufleg en svo var ekki. Þegar ekki var verið að veiðum var mikið spilað á spil og legið í sólbaði. Þá stóð Axel Magnússon kokkur fyrir kvöldvökum fram í stafni. Þar voru flutt ýmis skemmtiatriði og mikið sungið við harmonikkuundirleik Harrys Holsviks loftskeytamanns. Jafnt lagvissir sem laglausir kyrjuðu hástöfum Kátir voru karlar, Sjómannavalsinn og ýmsa ættjarðarsöngva þarna í hitabeltissvækjunni.

Allar vistir fengust í Norglobal. Þar var til dæmis hægt að fá nýbakað brauð og sígarettur. Mjólkin var hins vegar búin til daglega um borð í Berki í sérstakri maskínu og var notað í hana vatn, smjör og mjólkurduft.

Neðan þilja var góð loftkæling í Berki þannig að hitastig var þar hið þægilegasta þó hitastigið fyrir utan væri hátt. Enginn póstur barst skipverjum á meðan á Afríkuveiðunum stóð en unnt var að tala heim frá Norglobal.

Á fyrri hluta veiðitímabilsins við Afríkustrendur var Hjörvar Valdimarsson skipstjóri á Berki en síðan tók Sigurjón Valdimarsson við skipstjórninni.

Myndirnar sem fylgja þessum pistli tók Þórður Þórðarson sem var háseti á Berki á fyrri hluta veiðitímabilsins úti fyrir ströndum Máritaníu.

Deila: