Þórir aflahæstur á humrinum
Þórir SF, bátur Skinneyjar-Þinganess á Höfn í Hornafirði, er aflahæstur á yfirstandandi humarvertíð með 54,5 tonn af slitnum humri eins og miðað er við á aflastöðulista Fiskistofu, þrátt fyrir að nánast öllum humri sé landað heilum. Tveir næstu bátar eru Fróði II ÁR með 49,6 tonn og Jón á Hofi ÁR með 48,7 tonn, en þeir eru báðir frá Þorlákshöfn og gerðir út af Ramma hf.
Þar á eftir koma bátarnir Þinganes ÁR með 46,8 tonn og Skinney SF með 45 tonn, en þeir bátar eru báðir í eigu Skinneyjar Þinganess. Þá koma Drangavík VE með 34,9 tonn og Brynjólfur VE með 27,2 tonn, en báðir bátarnir eru í eigu Vinnslustöðvarinnar.
Næsti bátur er Sigurður Ólafsson SF með 8,2 tonn og loks Friðrik Sigurðsson ÁR með 1,8 tonn og Maggý VE með 1,2 tonn.
Aðeins 10 bátar hafa stundað humarveiðarnar í ár, en ríflega tveir tugir báta eru með aflaheimildir í humri. Mikið er því flutt á milli báta.
Leyfilegur heildarafli á vertíðinni nú er 489 tonn, en miklar heimildir voru fluttar frá síðasta fiskveiðiári yfir á þetta. Aflinn er alls orðinn 318 tonn og því óveidd 171,2 tonn miðað við slitinn humar. Ljóst er því að leyfilegur heildarafli næst ekki og mikið verður flutt yfir á næsta fiskveiðiár.
Á myndinni eru humarbátar Skinneyjar-Þinganess í við bryggju í Grindavík, en þeir stunda nú veiðar á vestursvæðinu.
Ljósmynd Hjörtur Gíslason.