​Enn auka Norðmenn útflutninginn

Deila:

Norðmenn fluttu utan 138.000 tonn af sjávarafurðum í júlí. Það var samdráttur um 4% en verðmæti útflutningsins jókst hins vegar um 2%. Verðmætið varð alls 88,7 milljarðar íslenskra króna. Það sem af er ári hafa Norðmenn flutt utan 1,4 milljónir tonna af sjávarafurðum að verðmæti 703 milljarðar króna. Magnið hefur vaxið um 5% og verðmætið um 8%.

Aukning í laxi

Norðmenn fluttu utan 74.200 tonn af laxi í júlí að verðmæti 66 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning um 8% í magni og 7% í verðmæti miðað við sama mánuð í fyrra. Það sem af er ári nemur útflutningur á laxi 524.200 tonnum að verðmæti 483,4 milljörðum króna. Magnið er svipað og á sama tíma í fyrra, en verðmætið er 14% meira.

Meðalverð á heilum ferskum laxi í júlí var 852 krónur á hvert kíló, sem reyndar er litlu lægra en í sama mánuði í fyrra.

Minna af urriða

Mikill samdráttur hefur orðið í útflutningi á urriða á þessu ári. Í júlí fóru utan 2.100 tonn, sem er fall um 61%. Það sem af er ári hafa 19.700 tonn af urriða verið flutt utan, sem er 56% samdráttur. Verðmætið hefur fallið minna eða um 34%

Meira selt af ferskum og frystum þorski

Útflutningur á ferskum þorski í júlí var 3.100 tonn, bæði heill fiskur og flök að verðmæti einn milljarður króna. Það aukning um 1.100 tonn eða 52%. Verðmætið hefur hins vegar auðeins aukist um 7%. Mest af þorskinum fer til Danmerkur og Spánar. Það sem af er ári nemur þessi útflutningur 56.700 tonnum að verðmæti 25,2 milljarðar króna. Það er aukning um 10% bæði í magni og verðmæti.

Norðmenn fluttu utan 7.200 af frystum þorski, hausuðum og slægðum og í flökum að verðmæti þrír milljarðar íslenskra króna. Það er aukning í magni um 12% og 13% í verðmæti. Það sem af er ári nemur útflutningurinn 45.800 tonnum að verðmæti 19,9 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning um 2% bæði í magni og verðmæti. Mest af frysta þorskinum fór til Kína og Litháen í júlí.

 

Meira utan af saltfiski

Útflutningur Norðmanna á þurrkuðum saltfiski í júlí nam 5.200 tonnum og skilaði það þremur milljörðum íslenskra króna. Um lítils  háttar aukningu er að ræða bæði í magni og verðmæti. Það sem af er árinu hafa Norðmenn selt 47.000 tonn af þurrkuðum saltfiski að verðmæti 27,8 milljarðar króna. Það er aukning um 17% í magni og 13% í verðmæti. Mest af þessum fiski fer til Portúgal og Brasilíu.

Þá seldu Norðmenn 1.300 tonn af blautverkuðum saltfiski í júlí. Það var aukning um 16% í magni og 29% í verðmæti. Það sem af er árinu nemur þessi útflutningur 21.500 tonnum að verðmæti 12,6 milljarðar króna. Er það samdráttur um 5% í magni, en verðmætið hefur aukist um 3%.

Sala á skreið var lítil í júlí, aðeins 148 tonn. Samdráttur í magni var ríflega fjórðungur og verðmætið lækkaði um 18% miðað við sama mánuð í fyrra. Það sem af er árinu hafa 1.991 tonn af skreið farið utan að verðmæti 3,5 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning um 2% í magni og 7% í verðmæti. Helstu markaðirnir fyrir skreiðina eru Nígería og Króatía.

Meira af síld fyrir lægra verð

14.500 tonn af síld fóru utan í júlí og var verðmæti þess útflutnings tveir milljarðar. Það er aukning um 11% í magni en verðmætið dróst saman um 24%. Það sem af er ári hafa 152.400 tonn af síld verið flutt utan að verðmæti 21,2 milljarðar króna. Það er aukning í magni um 22% en verðmætið hefur lækkað um 24%. Mest af síldinni hefur farið til Hollands og Þýskalands.

Helstu markaðir Norðmanna fyrir makríl eru Kína og Suður-Kórea. 4.900 tonn af makríl fóru utan í júlí og var verðmætið 972 milljarðar íslenskra króna. Það er aukning um 33% í magni og 49% í verðmæti miðað við sama mánuð í fyrra. Það sem af er ári nemur makrílútflutningurinn 101.000 tonnum að verðmæti 17,2milljarðar króna. Það er samdráttur í magni um 4% en verðmætið hefur hækkað um um 5%.

Af örðum tegundum má nefna að Norðmenn hafa aukið útflutning á rækja en sala á kóngakrabba hefur dregist saman.

 

Deila: