Blængur líklega til veiða í kvöld

Deila:

Um hádegisbil í gær kom frystitogarinn Blængur NK til heimahafnar í Neskaupstað að loknum gagngerum breytingum og endurbótum fyrst í Póllandi og síðan á Akureyri. Síldarvinnslan festi kaup á Blængi árið 2015 en í marsmánuði 2016 hélt skipið til Gdansk í Póllandi þar sem framkvæmdir hófust strax samkvæmt frétt á heimasíðu Síldarvinnslunnar.

Á myndinni eru Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson skipstjórar á Blængi NK. Ljósm. Hákon Ernuson

Á myndinni eru Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson skipstjórar á Blængi NK.
Ljósm. Hákon Ernuson

Í Póllandi var skipið sandblásið og málað hátt og lágt, allar vistarverur áhafnar voru endurnýjaðar og eins allir innviðir í brúnni. Þá var tækjabúnaður í brú endurnýjaður að miklu leyti og lestinni breytt þannig að unnt væri að vinna þar á lyftara, enda gert ráð fyrir að allur fiskur yrði settur á bretti. Hliðarskrúfa var sett í skipið, öll lýsing utandyra endurnýjuð og skipt um það sem var farið að gefa sig. Allur vinnslubúnaður á millidekkinu var fjarlægður og það einnig sandblásið og málað.

Blængur kom heim frá Póllandi í lok júlí en í byrjun ágúst hélt skipið til Akureyrar þar sem vinna hófst á millidekki hjá Slippnum ehf. Hluti af búnaði á millidekki kom úr Barða NK en annað var keypt nýtt eða smíðað af Slippnum. Gert er ráð fyrir að frystigetan verði 1.800 kassar á sólarhring eða 38 tonn af afurðum og er þá miðað við vinnslu á karfa.

Skipstjórar á Blængi eru þeir Bjarni Ólafur Hjálmarsson og Theodór Haraldsson. Fréttamaður heimasíðunnar hitti þá að máli en þá var verið að taka veiðarfæri, umbúðir og bretti um borð í skipið. Sögðu þeir að gert væri ráð fyrir að skipið héldi til veiða í kvöld og þá yrði farið í stuttan túr, viku eða svo. Sögðu þeir að ætlunin væri að prófa allan búnað í skipinu í túrnum og að honum loknum yrði sinnt smávægilegum frágangi á millidekki ásamt því að sett yrði upp ný brettavefja.

Þeir Bjarni Ólafur og Theodór sögðust vera afar ánægðir með skipið og allar þær endurbætur sem hefðu verið gerðar á því. Skipið væri í alla staði fínt, snyrtilegt og vel búið. Sögðu þeir að það legðist vel í mannskapinn að halda til veiða eftir langt hlé og væru menn spenntir að sjá hvernig  búnaðurinn um borð myndi reynast.

 

Vinnslubúnaður á millidekki Blængs NK. Ljósm. Hákon Ernuson

Vinnslubúnaður á millidekki Blængs NK. Ljósm. Hákon Ernuson

 

 

Deila: