Spá verðlækkun á þorski

Deila:

Ýmislegt bendir nú til þess að verð á þorski á Íslandi muni lækka, bæði á innlendum mörkuðum og á afurðamörkuðunum fyrir ferskan þorsk ytra. Skýringin er sú að nú að loknu verkfalli mun berast mikið af þorski að landi og líklega þrýstir það verðinu á innlendu fiskmörkuðunum niður. Verð á þeim í gær var orðið lágt, óslægður þorskur að meðaltali á 213 krónur kílóið og slægður á 238 krónur. Framboð á þorski var lítið, um 280 tonn, enda stóru bátarnir og togararnir ekki farnir að landa enn.

Alþjóðlegi fréttavefurinn Undercurrent news fjallaði um horfurnar í frétt í gær og hafði eftir heimildarmönnum sínum að erfitt væri að spá um þróunina en mikið flæði af íslenskum þorski inn á markaðina og þörf útflytjenda fyrir því að ná mörkuðum á ný eftir langt verkfall, væru líklegir þættir til að hafa áhrif á verðið. Einnig skiptir máli að á þessum árstíma er mikið framboð af þorski frá Noregi, en við upphaf vetrarvertíðar þar lækkar verð á ferskfiskmörkuðum fyrir þorsk að öllu jöfnu.

Martyn Boyers, framkvæmdastjóri fiskmarkaðsins í Grimsby, segir hugsanlegt að verðið lækki. Framboð á þorski frá Íslandi hafi verið mjög lítið undanfarnar vikur og þeir hafi þurft að leita til annarra landa eftir þorski til að geta mætt eftirspurn viðskiptavina sinna.

Það er algeng skoðun að mikið framboð af þorski leiði til verðfalls. Mikilvægt sé fyrir íslenska útflytjendur að yfirfylla ekki markaðinn, en erfitt er stjórna framboði á ferskum fiski. Baráttan um markaðina getur leitt til verðlækkana sem erfitt getur verið að vinna upp aftur, en verðlækkun getur líka leitt til aukinnar fiskneyslu sem skilar sé í tímans rás.

Deila: