Helmingurinn er lax

Deila:

Fyrstu upplýsingar um útflutning sjávarafurða frá Færeyjum á síðasta ári sýna að útflutningsverðmætið er um 8 milljarðar færeyskra króna, sem svarar til 126 milljarða íslenskra króna. Það er aukning um meira en 16 milljarðar íslenskra króna eða 16%. Vöxtinn má fyrst og fremst rekja til laxeldis.

Útflutningur frá Færeyjum 2016

Verðmæti útflutts lax jókst um 31% eða 13,6 milljarða íslenskra króna, en alls varð verðmætið fyrir útfluttan eldislax um 58 milljarðar. Það er nærri helmingur alls útflutningsverðmætis fyrir fiskafurðir.

Einnig hefur verðmæti útflutts makríls og kolmunna vaxið, en dregist saman í síldinni. Verðmæti útflutts makríls fór í fyrsta sinn yfir eina milljón færeyskra króna en það svarar til um 16 milljarða íslenskra króna.

Útflutningsverðmæti í flokknum „annar fiskur“ hefur fallið um 1,6 milljarða en á sama tíma hefur verðmætið í flokknum „fiskaúrdráttur“ hækkað um 2,2 milljarða íslenskra króna. Skýringin liggur í flutningi milli flokka með nýrri tollnúmeraskrá.

Verðmæti útflutts botnfisks, þorsks, ýsu og ufsa hefur dregist saman, en magnið hefur vaxið.

Útflutningur frá Færeyjum 2016 2

Rússar kaupa fjórðunginn

Rússland er það land annað árið í röð sem kaupir mest af fiski frá Færeyjum. Fyrir það greiða þeir um 30 milljarða íslenskra króna. Næst mest fer til Bandaríkjanna, 11% eða fiskur fyrir 14,2 milljarða. Bretland er í þriðja sætinu og síðan koma Danmörk og Kína. Um helmingurinn af útflutningnum til Rússlands er eldislax, en þangað fara auk þess makríll að verðmæti 7,8 milljarðar króna og síld að verðmæti 4,7 milljarðar. Til Bandaríkjanna fer nær eingöngu lax.

Bretar kaupa lax fyrir 5,4 milljarða og þorsk fyrir 4,5 milljarða. Af sölunni til Danmerkur er laxinn 40% og þorskurinn 35% af heildarútflutningi þangað. Af útflutningi til Danmerkur er 35% lax og 92% af því sem fer til Kína er lax.

Deila: