Eimskip hefur siglingar til Helsingborgar í Svíþjóð

Deila:

Eimskip hefur ákveðið að hefja siglingar til Helsingborgar í Svíþjóð frá og með 4. maí 2017. Félagið mun á sama tíma hætta siglingum til Halmstad þar sem það hefur haft viðkomur undanfarin ár. Færslan til Helsingborgar er liður í stöðugri uppbyggingu á siglingakerfi félagsins, en með breytingunni komast viðskiptavinir í enn betri tengingu við aðra markaði og önnur skipafélög. Mikil aukning hefur verið í flutningum á milli Íslands og Svíþjóðar, til og frá Færeyjum og í Atlantshafsflutningum til og frá Norður-Ameríku.

Skrifstofa félagsins mun jafnframt flytja í næsta nágrenni hafnarinnar til að vera í meiri nálægð við gámavöll og skipakomur. Vöruhúsi verður komið upp nálægt höfninni þar sem lestun og losun gáma fer fram. Síðasta viðkoma rauðu leiðarinnar í Halmstad verður þann 27. apríl næstkomandi.

Flutningurinn til Helsingborgar í Svíþjóð er mikilvægt skref til að efla enn frekar þjónustu við viðskiptavini Eimskips. Hafnaryfirvöld hafa fjárfest mikið á undanförnum árum í umgjörð hafnarinnar og hefur höfnin nú yfir að ráða hátæknivæddu hafnarsvæði sem auka mun áreiðanleika þjónustunnar. Uppbyggingin hefur meðal annars leitt til aukinnar geymslugetu á hitastýrðum gámum og hefur öll meðhöndlun og þjónusta þeim tengdum verið efld. Gámahöfnin í Helsingborg er sú fjórða stærsta í Skandinavíu.

„Flutningurinn til Helsingborgar skiptir miklu máli fyrir framtíðaruppbyggingu Eimskips á siglingakerfi félagsins. Höfnin í Helsingborg opnar betri möguleika fyrir viðskiptavini okkar,  bæði hvað varðar inn- og útflutning til og frá Íslandi, Færeyjum og Norður-Ameríku. Við fögnum því að hafa náð góðu samkomulagi við hafnaryfirvöld í Helsingborg og tökum fagnandi þeim tækifærum sem opnast við þessa breytingu. Á sama tíma kveðjum við Halmstad eftir gott samstarf undanfarin ár,“ segir Gylfi Sigfússon forstjóri Eimskips

„Við bjóðum Eimskip velkomið til hafnarinnar í Helsingborg þar sem Eimskip mun tengja okkur betur við Norður- Atlantshafið og þá sérstaklega Færeyjar, Ísland og Norður-Ameríku. Við efumst ekki um að þetta mun opna mikla möguleika fyrir Svíþjóð og höfnina í Helsingborg,“ segir Niels Vallø, forstjóri hafnarinnar í Helsingborg.

 

 

Deila: