Tæp 1.600 tonn í tveimur köstum

Deila:

Víkingur AK var í gær á leið til Vopnafjarðar með um 1.580 tonn af loðnu sem fékkst í tveimur köstum kvöldið áður við Tvísker, skammt vestan við Jökulsárlón á Breiðamerkursandi. Loðnan var stór og góð, um 60% aflans var hrygna, og hún hentar því vel til frystingar.

Er heimasíða HB Granda náði sambandi við Albert Sveinsson, skipstjóra á Víkingi, var skipið norðan við Reyðarfjörð í slæmu veðri að sögn skipstjórans. Albert segir að Víkingur hafi komið á miðin við SA-land um kl. 16 í fyrradag.

,,Við tókum tvö köst. Fengum um 1.000 tonn af loðnu í fyrra kastinu og tæp 600 tonn í því síðara. Það var mokveiði á svæðinu. Við byrjuðum við Tvísker og enduðum um þrjár mílur austan við Ingólfshöfða. Þegar við fórum af svæðinu um klukkan hálftvö í nótt var loðnan komin að Ingólfshöfða þannig að það er ferð á henni,“ sagði Albert.

Að sögn Alberts hefur siglingin til Vopnafjarðar hins vegar verið róleg enda liggur lítið á. Venus NS kom til Vopnafjarðar með um 1.100 tonn af loðnu í gærmorgun og það tekur drjúgan tíma að landa og vinna það magn.

,,Það er þó afleitt að þurfa að byrja jafn seint á loðnuveiðunum nú og raun ber vitni. Tíminn líður hratt og það er ótrúlega stuttur tími til stefnu. Hrognataka hefur oft hafist þegar loðnugangan er komin til móts við Vestmannaeyjar. Reyndar hafa þau hrogn, sem þá eru tekin til frystingar, ekki verið af mestum gæðum en það munar um hvern daginn eftir það,“ segir Albert Sveinsson.
 

 

Deila: