Sveiflur i verðmæti fiskaflans

Deila:

Verðmæti landaðs fiskafla er afskaplega mismunandi eftir landshlutum. Það er langmest á höfuðborgarsvæðinu, en minnst á Norðurlandi vestra. Verðmætið sveiflast einnig mikið og í nóvember síðastliðnum, jókst það mest um rúm 19% á höfuðborgarsvæðinu, en féll um 41% á Suðurlandi. Að meðaltali lækkaði verðmæti landaðs afla um 3,5% í nóvember þrátt fyrir að aflinn stæði nánast í stað.

Aflaverðmæti var mest á höfuðborgarsvæðinu, 2,8 milljarðar og jókst um tæpan fimmtung miðað við sama mánuð árið áður. Skýringin er einfaldlega meiri landanir, en miklu máli skiptir hvoru megin mánaðamóta landanir stórra farma frystiskipa lenda.

Næst mest var aflaverðmæti á Suðurnesjum, rétt rúmir tveir milljarðar, sem er 8% aukning frá árinu áður. Norðurland eystra fyrir suðurnesjunum fast á eftir með rétt tæpa tvo milljarða króna, sem reyndar er samdráttur um 16%. Austurland kemur næst með 1,1 milljarð króna, sem er 55 samdráttur.

Á Suðurlandi var verðmæti landaðs fiskafla 622 milljónir króna, sem er samdráttur um 41%, sem er langt umfram landsmeðaltalið. Sé hins vegar litið til síðustu 12 mánaða er aflaverðmæti á Suðurlandi nánast það sama og landsmeðaltalið. Því er ljóst að landanir hafa fallið „öfugu megin“ mánaðamóta að þessu sinni.

Vesturland heldur hlut sínum milli mánaða með 540 milljónir í aflaverðmæti, er rétt fyrir ofan landsmeðaltalið í samdrætti. Á Vestfjörðum var landað afla að verðmæti 530 milljónir króna, sem er samdráttur um rúmlega fimmtung. Svipaður samdráttur var á Norðurlandi vestra og var aflaverðmæti þar 440 milljónir króna.

Deila: