Norskt línuskip gripið í landhelgi

Deila:

„Varðstjórar í stjórnstöð Landhelgisgæslunnar urðu varir við að norskt línuskip væri á veiðum innan bannsvæðis í fiskveiðilögsögunni í fyrrinótt. Þetta var unnt að sjá í fjareftirlitskerfi Landhelgisgæslunnar.” Þetta kemur fram á vef gæslunnar.

Í fréttinni kemur fram að varðstjórarnir hafi þegar haft samband við skipstjórnarmann sem hafi viðurkennt að hann væri á veiðum. Honum var gert ljóst að hann væri að veiða á bannsvæði og var vísað til hafnar. Fiskiskipið kom til Reykjavíkur aðfararnótt laugardags og fóru liðsmenn séraðgerðasveitar Landhelgisgæslunnar, lögreglumenn og fulltrúar Fiskistofu um borð. Rætt var við áhöfn skipsins auk þess sem farið yfir afladagbók og veiðarfæri.

Norska skipið hélt frá Reykjavík að vettvangsrannsókn lokinni. Lögregla annast rannsókn málsins í samvinnu við Landhelgisgæsluna.

Myndin er af vef Landhelgisgæslunnar.

Deila: