Útflutningsverðmæti sjávarútvegs dróst saman um 12,2%

Deila:

Hagnaður fyrir afskriftir, fjármagnskostnað og tekjuskatt (verg hlutdeild fjármagns eða EBITDA) sem hlutfall af heildartekjum sjávarútvegsins dróst saman milli áranna 2015 og 2016. Í fiskveiðum og -vinnslu lækkaði þetta hlutfall (án milliviðskipta) úr 27,3% í 25,4% og í fjárhæðum varð hlutdeildin 56 milljarðar. Í fiskveiðum lækkaði hún úr 26,1% árið 2015 í 24,2% árið 2016, varð rúmir 33,3 milljarðar og í fiskvinnslu lækkaði hún úr 13,5% í 11,9%, í rúma 22,7 milljarða.

Hreinn hagnaður botnfiskveiða og -vinnslu, reiknaður í hlutfalli af tekjum samkvæmt árgreiðsluaðferð, lækkaði úr 21,2% af tekjum árið 2015 í 18,4 árið 2016. Hreinn hagnaður botnfiskveiða lækkaði úr 18,0% af tekjum í 14% en hagnaður botnfiskvinnslu dróst saman úr 10,3% af tekjum í 10,1%.

Hagnaður botnfiskveiða 14% og botnfiskvinnslu 10,1% af tekjum

Hreinn hagnaður uppsjávarveiða og bræðslu fór úr 15,6% í 12,4%. Í heild var hreinn hagnaður sjávarútvegsins 14,4% af tekjum að frádregnum milliviðskiptum með hráefni en var 17,8% árið 2015. Í fjárhæðum nam hagnaðurinn 31,7 milljörðum króna eftir að gjaldfærð hefur verið árgreiðsla að fjárhæð 24,2 milljarðar.

Verð sjávarafurða á erlendum mörkuðum í íslenskum krónum lækkaði um 6,4% frá fyrra ári og verð á olíu lækkaði að meðaltali um 16,9% á milli ára. Gengi dollarans veiktist um 8,5% og gengi evrunnar um 8,7% á milli ára.

Útflutningsverðmæti sjávarútvegs í heild dróst saman um 12,2%, og nam tæpum 232 milljörðum króna á árinu 2016, verð á útflutningsvörum í sjávarútvegi lækkaði um 9,8% og magn útfluttra sjávarafurða dróst saman um 2,7%.

Um 7900 manns starfaði við sjávarútveg í heild árið 2016 sem er um 4,2% af vinnuafli á Íslandi. Veiðigjald útgerðarinnar lækkaði úr 7,7 milljörðum fiskveiðiárið 2014/2015 í 6,9 milljarða fiskveiðiárið 2015/2016. Í reikningum fyrirtækjanna er veiðigjaldið talið með öðrum rekstrarkostnaði.

Hagnaður var á rekstri mjöl- og lýsisvinnslu og uppsjávarfrystiskipa á árinu 2016. EBITDA mjöl- og lýsisvinnslu var 17,8% og uppsjávarfrystiskipa 28,7% af tekjum. EBITDA uppsjávarveiðiskipa var 28,5%. Uppsjávarafli árið 2016 var rúmlega 40% meiri en á árinu 2015 en verðið lækkaði um 7% á milli ára.

Ferskfiskvinnsla jókst í magni um 12,4% en verðið lækkaði um tæp 8% í íslenskum krónum og verðmætið var því um 3,7% hærra en árið 2015. Verg hlutdeild fjármagns var 2,6% og hreinn hagnaður 0,5% sem er nokkuð lakari afkoma en árið 2015.

EBITDA strandveiða 15,6% og smábáta 12,%

Afkoma smábáta versnaði árið 2016. Alls voru 874 smábátar að veiðum og öfluðu rúmlega 24 þúsund tonna að verðmæti rúmlega 5 milljarða. Af þessum 874 smábátum voru 480 bátar, flestir minni en 10 brúttótonn, við strandveiðar á árinu 2016. Afli þeirra var um 9.100 tonn og aflaverðmætið tæplega 2,3 milljarðar. EBITDA strandveiðanna árið 2016 var 15,6%. EBITDA annarra báta undir 10 tonnum á almennum veiðum var 12,8%.

Nokkur munur er á afkomu sjávarútvegsins í heild árið 2016 þegar milliviðskipti hafa verið felld út, eftir því hvort hagnaður er reiknaður eftir árgreiðsluaðferð eða á hefðbundinn hátt miðað við gjaldfærðar afskriftir og fjármagnskostnað. Hreinn hagnaður var 14,4% skv. árgreiðsluaðferðinni en 24% skv. hefðbundnu aðferðinni. Munurinn ef einhver er, stafar meðal annars af því að beinna áhrifa af breytingum á gengi við mat á fjármagnskostnaði gætir ekki þegar árgreiðsluaðferðin er notuð og hún því hentugri ef litið er á afkomuna yfir lengra tímabil. Þá er fólgin í árgreiðsluaðferðinni gjaldfærsla sem nemur 6% af stofnverði rekstrarfjármuna hvort sem þeir fjármunir eru fjármagnaðir með lánsfé eða eigin fé. Í hefðbundnu uppgjöri er vaxtakostnaður gjaldfærður eins og hann varð af lánsfé, en engir vextir eru reiknað- ir af eigin fé. Árið 2016 eru vaxtatekjur nokkuð hærri en vaxtagjöld og gengismunur, því verður afkoman verulega betri eftir hefðbundinni aðferð en samkvæmt árgreiðsluaðferð miðað við fyrri ár.

Hjá strandveiðibátum sýnir árgreiðsluaðferðin mun lakari afkomu en sú hefð- bundna því fjöldi strandveiðibáta sem veiðir takmarkaðan afla er mjög mikill og því verður árgreiðslan, sem er reiknuð út frá vátryggingarverðmæti bátanna, hlutfallslega mjög há.

Ekki var unnt að meta afkomu í rækjuvinnslu árið 2016 er hún innifalin í frystingu vinnslunnar.

Eigið fé 262 milljarðar

Samkvæmt efnahagsreikningi voru heildareignir sjávarútvegs í árslok 2016 rúmir 621 milljarðar króna, heildarskuldir tæpir 360 milljarðar og eigið fé tæpir 262 milljarðar. Hagstofan fékk upplýsingar frá endurskoðendum um tilfærslur á milli áhættufjármuna og eiginfjár vegna mats á eiginfjárhlutdeild í eigin fé annarra sjávarútvegsfyrirtækja, en þær námu rúmum 15 milljörðum og eru taldar með í niðurstöðunum. Verðmæti heildareigna hækkaði um 5,4% frá 2015 og fjárfestingar í varanlegum eignum hækkuðu um 3,5%. Skuldir lækkuðu um 2,8%. Eiginfjárhlutfallið reyndist 42,2% en var 37,4% í árslok 2015. Eiginfjárhlutfallið hefur vaxið úr nær engu í 42,2% síðastliðin 7 ár.

Deila: