Bland í poka
,,Við byrjuðum túrinn á Halanum á Vestfjarðamiðum. Þar er búin að vera mjög góð ufsaveiði nokkuð lengi þótt veiðin hafi átt það til að detta niður dag og dag. Við urðum ekki fyrir vonbrigðum því á þeim rúma sólarhring sem við vorum að veiðum fengum við 70 tonn af ufsa,“ segir Heimir Guðbjörnsson, skipstjóri á ísfisktogaranum Helgu Maríu AK í samtali á heimasíðu HB Granda.
Helga María kom til hafnar í Reykjavík a sunnudag með um 156 tonna afla en Heimir segir að vegna frídags verkalýðsins á morgun og lokunar fiskiðjuversins á Norðurgarði þann dag þá hafi stefnan ekki verið sett á fullfermi að þessu sinni.
,,Við gerðum annars nokkuð víðreist í túrnum því frá Halanum fórum við beint suður og byrjuðum veiðar nyrst á Eldeyjarbankanum alveg við landhelgislínuna. Þar var mikið af góðum þorski, fjögurra til fimm kílóa þungum. Við stoppuðum þó ekki lengi en tókum tvö ágæt hol áður en við fluttum okkur um set og fórum suður á svokallaðan Heimsmeistarahrygg í Skerjadjúpinu. Þar kláruðum við að taka karfaskammtinn á hálfum sólarhring en túrinn enduðum við svo á Selvogsbankanum vestur úr Surtsey,“ segir Heimir.
Á Selvogsbankanum var lokið við að veiða þorskskammt veiðiferðarinnar.
,,Þetta var annars svona bland í poka eins og við segjum, því auk þorsksins fengum við löngu, ýsu og aðeins af karfa,“ sagði Heimir Guðbjörnsson.