Yfirborð sjávar fer hækkandi

Deila:

Yfirborð sjávar hækkar hraðar en talið hefur verið til skamms tíma. Þetta ráða sérfræðingar í loftslagsmálum af gervihnattamyndum sem ná allt aftur til ársins 1992. Það sem meira er, þá hækkar yfirborð heimshafanna hraðar með hverju árinu sem líður. Ef svo heldur fram sem horfir, þá mun hækkunin verða ríflega tvöfalt meiri en áætlað var árið 2100, samkvæmt frétt á ruv.is.

Hækkunin hefur numið um þremur millimetrum á ári að meðaltali frá 1993. Niðurstöður mælinga og útreikninga hóps vísindamanna, sem birtar voru í vísindatímaritinu  Proceedings of the National Academy of Sciences, benda til þess að hún verði orðin um tíu millimetrar á ári í lok þessarar aldar. Þetta þýðir að um aldamótin næstu gæti sjávarstaða við strendur heimshafanna verið orðin um 65 sentimetrum hærri að meðaltali en hún var árið 2005. Fyrri spár gerðu ráð fyrir um 30 sentímetra hækkun á þessu tímabili.

Steve Nerem, prófessor við Colorado-háskóla, sem fór fyrir rannsóknarteyminu, segir þetta mjög varlega áætlað. Í fimmtu ástandsskýrslu Milliríkjanefndar um loftslagsbreytingar, IPCC, frá 2014, er því spáð að hækkun sjávar fram til ársins 2100 verði á bilinu 28 til 98 sentímetrar. Sú spá byggir á reiknilíkönum, þar sem gengið er út frá mismikilli losun gróðurhúsalofttegunda. Spá Nerems og félaga byggir aftur á móti að miklu leyti á gögnum úr lengstu, samfelldu gervihnattamælingum á yfirborðshæð heimshafanna sem fyrir liggur, en hún teygir sig allt aftur til ágústmánaðar 1992.

Narem segir að útreikningarnir og spáin miðist við að þróunin verði sú sama næstu áratugi og hún hefur verið síðasta aldarfjórðunginn. Ólíklegt verði þó að heita að það gangi eftir. Í ljósi þeirra miklu og öru breytinga sem orðið hafa á heimskautaísnum allra síðustu ár sé mun líklegra að hækkunin verði enn meiri.

 

Deila: