„Frábært ár fyrir Marel“

Deila:

„Árið 2016 var frábært ár fyrir Marel. Sölumet var slegið í fjórða ársfjórðungi með mótteknum pöntunum upp á 295 milljónir evra og dreifist sú sala vel á milli kjúklinga-, kjöt og fiskiðnaðar. Viðskiptavinir okkar eru að setja upp tímamótaverksmiðjur í Asíu, Suður-Ameríku, Norður-Ameríku og Evrópu sem mun gera þeim kleift að bjóða upp á hágæða matvæli á hagstæðu verði. Önnur spennandi verkefni voru einnig tryggð í Afríku og Mið-Austurlöndum,” segir Árni Oddur Þórðarson, forstjóri Marel um afkomu félagsins í frétt á heimasíðu Marel.

„Við gengum frá kaupunum á MPS í byrjun ársins 2016 og gátum þar með boðið viðskiptavinum okkar í kjötiðnaði upp á heildarlausnir. Sameining félaganna gengur vel og hefur þegar skapað aukin verðmæti fyrir viðskiptavini okkar og hluthafa. Vert er að minna á að við yfirtókum MPS í byrjun árs án þess að gefa út nýtt hlutafé og hagnaður á hlut jókst um 34% á milli ára. Fjárhagsstaða félagsins er traust og sjóðsstreymi er sterkt sem leiðir til þess að skuldahlutfall er x2,25 EBITDA við árslok 2016.

Til að tryggja áframhaldandi vöxt og virðissköpun höfum við fjárfest vel í innviðum okkar og kynnt til sögunnar nýstárlegar og snjallar lausnir sem munu auka skilvirkni og sjálfbærni í matvælaframleiðslu. Að lokum vil ég þakka viðskiptavinum okkar og starfsmönnum fyrir viðburðaríkt og ánægjulegt ár. Saman höldum við áfram að umbylta matvælaframleiðslu á heimsvísu,“ segir Árni Oddur ennfremur.

„Mótteknar pantanir á fjórða ársfjórðungi 2016 nema 295 milljónum sem er metsala og dreifist sú sala vel á milli kjúklinga-, kjöt og fiskiðnaðar. Aukin fjöldi stærri verkefna á fjórða ársfjórðungi er í takt við það sem kynnt var með rekstrarniðurstöðu þriðja ársfjórðungs 2016 þegar sagt var að horfurnar fyrir stærri verkefni hefðu tekið við sér að nýju eftir laka byrjun á árinu. Fyrir árið í heild voru mótteknar pantanir fyrir staðlaða vöru og varahluti sterkar í öllum iðnuðum. Pantanabókin í árslok 2016 stendur í 350 milljónum evra samanborið við 320 milljónir í árslok 2015.

Pro forma tekjur ársins 2016 námu 983,0 milljónum evra samanborið við 975,8 milljónir árið 2015. Pro forma EBIT* jókst á milli ára og var 143,5 milljónir evra (14.6%) samanborið við 133,7 milljónir evra 2015 (13.7%). Sjóðstreymi frá rekstri var sterkt sem leiðir til þess að skuldahlutfall (nettó skuldir/EBITDA) er x2,25 við árslok 2016 samanborið við x2,9 eftir yfirtökuna á MPS í upphafi ársins.

Á aðalfundi félagsins fyrir árið 2017, sem haldinn verður 2. mars næstkomandi, mun stjórn Marel leggja til að hluthafar fái greiddan arð fyrir rekstrarárið 2016 sem nemur 2,14 evru sentum á hlut. Fyrirhuguð heildararðgreiðsla nemur um 15,3 milljónum evra sem samsvarar um 20% af nettó hagnaði ársins. Arðgreiðslutillaga þessi er í samræmi við markmið um fjármagnsskipan og arðgreiðslustefnu félagsins. Stjórn Marel hefur jafnframt veitt stjórnendum félagsins heimild til að kaupa eigin bréf fyrir allt að 15 milljónir evra að kaupvirði. Hlutirnir eru ætlaðir sem endurgjald í mögulegum fyrirtækjakaupum.

Marel gerir ráð fyrir að markaðsvöxtur nemi 4-6% á næstu árum. Með sterkri markaðsstöðu og nýsköpun ætlar Marel með innri vexti að vaxa hraðar en markaðurinn. Gera má ráð fyrir því að afkoman verði breytileg milli ársfjórðunga vegna efnahagsþróunar á heimsvísu, sveiflna í pöntunum og tímasetningu stærri verkefna. Að auki hyggst félagið halda áfram að vaxa með yfirtökum í samræmi við stefnu félagsins,“ segir um afkomuna á heimasíðu Marel.

 

Deila: