Markaðir að glatast
Magnús Björgvinsson, umboðsmaður Síldarvinnslunnar í Neskaupstað, í Bremerhaven í Þýskalandi, er áhyggjufullur vegna áhrifanna af sjómannaverkfallinu á viðskiptasambönd fyrirtækisins á þýska markaðnum.
„Ég er umboðsmaður fyrir Síldarvinnsluna í Þýskalandi og sé um að bjóða upp fisk sem fyrirtækið flytur á þýskan markað og selja hæstbjóðendum,“ segir Magnús í samtali við Morgunblaðið.
„Vegna verkfallsins er engan fisk að hafa hér heiman frá Íslandi. Það er aðallega karfi sem við höfum verið að selja og hann vantar núna sárlega,“ sagði Magnús.
Hann segir að þessi skortur sé farinn að bíta eftir þær átta vikur sem verkfallið hefur staðið. „Þetta er farið að hafa víðtæk áhrif, bæði á fiskverkun og fiskverslun með karfa, sem er hér í Bremerhaven um 90% af umsetningunni hjá þeim fyrirtækjum sem eftir eru,“ sagði Magnús.
Fiskkaupendur bera sig illa
Magnús segir að fyrirtækin sem hafi keypt karfa af honum í Bremerhaven beri sig mjög illa og séu illa stödd. Þau vanti þessa veltu og sölu til sín og séu í vandræðum. Margir hafa sent starfsfólk heim í svokallað vetrarfrí og aðrir hafa ákveðið að starfsfólkið vinni aðeins hluta úr degi, svo kallað „Kurzarbeit“,“ sagði Magnús.
Hann segir að slíkt geti haft þær afleiðingar fyrir þýsku fiskverkunarfyrirtækin, að þau missi starfsfólkið, sem lendi í því að fá ekki nægar tekjur, og leiti því á önnur mið, þannig að fyrirtækin hafi enga tryggingu fyrir því að fá fiskvinnslufólkið til baka, þegar verkfalli lýkur.
Hætta á að missa starfsfólk
„Þá getur það blasað við fiskvinnslufyrirtækjum hér í Bremerhaven, þegar verkfallið hefur verið leyst, að þau hafi ekki starfsfólk til þess að vinna og koma frá sér fiskinum,“ sagði Magnús.
Magnús segir það þó sýnu verst, að neytandinn, sem hafi verið tryggur fiskkaupandi og karfakaupandi, sé farinn að leita í aðrar tegundir, sem sé aðallega þorskur og ufsi frá Noregi, sem séu á álíka verði og karfinn. Markaðir séu því klárlega að glatast.
Karfaverð mjög hátt
„Karfinn og raunar allur fiskur er á mjög háu verði hér í dag. Fólk sem ekki fær karfann frá Íslandi leitar í aðrar tegundir, sem eru miklu ódýrari, eins og fuglakjöt og svínakjöt, sem er allt að þriðjungi ódýrara en fiskur í venjulegu umhverfi og enn meiri verðmunur er í dag, vegna lítils framboðs. Þetta er grafalvarlegt ástand, sérstaklega af því að verkfallið hefur staðið svo lengi. Í janúar fæst oft hátt verð fyrir fiskinn, sem býðst bara í takmörkuðu magni, út af veðrum og fríum. Nú er kominn sá tími sem er besti sölutíminn allt fram að páskum, en horfur eru á að hann fari forgörðum að miklum hluta, sem vitanlega er miður,“ sagði Magnús Björgvinsson.