Skipulagsstofnun bendir á 5 þætti vegna umhverfismats á fiskeldi Samherja á Reykjanesi

Deila:

Skipulagsstofnun hefur farið yfir matsáætlun Samherja fiskeldis þar sem eru kynnt áform fyrirtækisins um byggingu og rekstur fiskeldisstöðvar með 40.000 tonna framleiðslugetu á ári í Auðlindagarði HS Orku við Garð á Reykjanesi og gerð grein fyrir hvernig fyrirtækið hyggst standa að mati á umhverfisáhrifum framkvæmdarinnar. Stofnunin bendir á 5 þætti sem gera þarf betri grein fyrir þegar að umhverfismati kemur.

„Fiskeldisstöðin samanstendur af seiðastöð með 6.000 m3 eldisrými, áframeldisstöð með 410.000 m3 eldisrými, hreinsistöð og sláturhúsi ásamt þjónustubyggingum. Framleiðslugeta stöðvarinnar verður 40.000 tonn á ársgrundvelli og standandi lífmassi að hámarki 20.000 tonn. Laxahrogn verða fengin frá Stofnfiski og bleikjuhrogn frá Hólum eða klakfiskastöð Samherja fiskeldis í Sigtúnum. Til framleiðslunnar þarf um 20.000 l/s af jarðsjó sem áformað er að bora eftir innan lóðar, 3.200 l/s af 32-37°C ylsjó sem kemur frá Reykjanesvirkjun og 50 l/s af ferskvatni sem verður leitt inn á lóðina 2 með veitukerfi HS-Orku. Fast efni verður síað úr frárennsli í hreinsistöð áður en því verður veitt til sjávar. Um framkvæmdalýsingu vísast að öðru leyti til matsáætlunar Samherja fiskeldis framkvæmdaraðila. Að neðan er gerð grein fyrir atriðum sem fjalla þarf um í umhverfismatsskýrslu umfram það sem tilgreint er í tillögu framkvæmdaraðila eða leiðir beint af kröfum í 21. gr. laga nr. 111/2021 um umhverfismat framkvæmda og áætlana og reglugerðar á grundvelli þeirra,“ segir í skýrslu Skipulagsstofnunar. Þar segir ennfremur:

„Í samræmi við 21. gr. laga um umhverfismat framkvæmda og áætlana nr. 111/2021 hefur Skipulagsstofnun farið yfir framlagða matsáætlun Samherja fiskeldis ásamt umsögnum og viðbrögðum framkvæmdaraðila við þeim. Við vinnslu og framsetningu umhverfismatsskýrslu þarf að: 1. Valkostir – áfangaskipting. Gera grein fyrir kostum við áfangaskipta uppbyggingu starfseminnar.

2. Valkostir – lóðarval. Gera grein fyrir kostum við lóðarval í Auðlindagarðinum og valkosti Samherja fiskeldis að teknu tilliti til umhverfisáhrifa kostanna.

3. Framkvæmdasvæði. Greina frá því að hvaða marki svæðið sé raskað eða gróið og meta hver verði áhrif fyrirhugaðra framkvæmda á náttúrufar svæðisins.

4. Grunnvatn. Meta áhrif af vatnsvinnslunni með hliðsjón af hámarksvinnslu sem og meðalvinnslu. Mat á áhrifum af grunnvatnsvinnslunni þarf að fela í sér mat á aðrennslissvæði vatnsbóla, umfang niðurdráttar og breytingar á seltu. Jafnframt þarf mat á áhrifum á grunnvatn að svara því hvort og þá hvernig vatnstaka Eldisgarðs Samherja fiskeldis takmarkar vatnsvinnslu annarra notenda á svæðinu. Meta þarf sérstaklega hvaða áhrif bág staða grunnvatns í náttúrulegum sveiflum hefur á vatnsvinnslu á svæðinu.

5. Vöktun. Gera grein fyrir vöktun á vatnafari svæðisins sbr. ábendingar Veðurstofu Íslands. Nauðsynlegt er að vöktunaráætlun feli m.a. í sér viðmið sem talin eru ásættanleg fyrir stöðu grunnvatns á svæðinu og ráðgert er styðjast við sem og viðbragðsáætlun ef niðurstaða vöktunar reynist ekki ásættanleg. Ef bora þarf sérstakar eftirlitsholur vegna vöktunar þarf að gera grein fyrir því í umhverfismatsskýrslu.“

Deila: