TSrobotix vann í Hönnunarkeppninni

Deila:

Hönnunarkeppni véla- og iðnaðarverkfræðinema var haldin í 26. sinn um síðustu helgi á UTmessunni í Hörpu. Marel hefur verið einn af aðalstyrktaraðilum keppninnar frá upphafi og setti Guðbjörg Heiða Guðmundsdóttir, vöruþróunarstjóri Marel, keppnina í ár og fjallaði um hvað keppnin gæfi góða innsýn í spennandi starf hönnuða og meðal annars það sem við í Marel erum að eiga við. Hvernig eigi að hanna vélar og róbóta sem leysa ákveðnar þrautir á ákveðnum tíma og uppfylla um leið allskyns kröfur og skilyrði. Frá þessu er sagt á heimasíðu Marel.

Markmið keppninnar var að hanna og smíða róbóta sem leysa röð af þrautum á meðan þeir freista þess að komast á leiðarenda. Hér má sjá myndband sem sýnir þrautina.

Í ár voru 16 keppendur í 6 liðum skráð til þátttöku og voru róbótarnir eins mismunandi og þeir voru margir. Ingi Valur Grétarsson, Kristján Örn Aðalbjörnsson og Sverrir Jónsson áttu ekki í vandræðum með brautina og sigruðu keppnina með fullt hús stiga og hlutu að verðlaunum 400.000 kr ásamt 100.000 kr. fyrir frumlega hönnun frá Nýherja.

Marel veitti Þóri Sævari Kristinssyni og Andra Þorlákssyni í VisioBot  300.000 kr. verðlaun fyrir 2. sætið og Kristófer Smára Leifssyni, Róberti Kraciuk og Óðni Snæ Guðmundsson í  Team G-bog 200.000 kr. fyrir 3. sætið.

Mikill áhugi var á keppninni en fullt var út úr dyrum í Silfurbergi og fylgdust ungir sem aldnir með hverju liðinu á fætur öðru reyna við snúna brautina. RÚV tók upp keppnina eins og síðustu ár og geta áhugasamir fylgst með þætti þeirra um Hönnunarkeppnina í lok apríl.

Deila: