Mikil lækkun skulda í sjávarútveginum
Ritið hagur veiða og vinnslu frá Hagstofu Íslands er komið út en, þar er birt afkoma sjávarútvegs árið 2015. Skilyrði árið 2015 voru góð. Verð á sjávarafurðum hækkaði á heimsmarkaði og gengið var hagstætt til útflutnings. Hagnaður jókst jafnframt á milli áranna 2014 og 2015. Ástæður aukningar má m.a. rekja til aukins loðnukvóta ársins 2015. Á sama tíma lækkuðu skuldir sjávarútvegsfyrirtækja verulega, en frá árinu 2008 hafa þau greitt niður skuldir fyrir 355 milljarða króna. Farið er yfir helstu niðurstöður í eftirfarandi úttekt sem birt er á heimasíðu Samtaka fyrirtækja í sjávarútvegi.
Aflahlutur sjómanna hækkaði á milli áranna 2014 og 2015 um 10%. Árið 2016 og áætlanir ársins 2017 eru ekki jafn hagfelld. Gengið hefur styrkst verulega og útlit er fyrir að enginn loðnukvóti verði gefinn út árið 2017. Miðað við skilyrði í umhverfi sjávarútvegs má gera ráð fyrir að framlegð dragist verulega saman árin 2016 og 2017.
Eigið fé og skuldastaða betri 2015
Frá árinu 2009 til 2015 hafa fyrirtæki í sjávarútvegi nýtt hagfelld skilyrði til að greiða niður skuldir og byggja upp eigið fé. Eigið fé sjávarútvegsins þurrkaðist út árið 2008. Árið 2015 var það komið á sambærilegan stað og það var árið 2008. Eiginfjárhlutfall árið 2015 var 37% en árið 2008 var það neikvætt um 18%.
Heimild: Hagstofa
Fjárfestingar hafa aukist verulega en fjárfest hefur verið fyrir yfir 100 milljarða króna samkvæmt gagnagrunni Deloitte. Uppsöfnuð fjárfestingaþörf var orðin mikil en 150 stærstu skip flotans voru orðin að meðaltali 30 ára gömul árið 2014 samkvæmt Samgöngustofu. Nú hefur orðið veruleg endurnýjun og 12 ný skip ýmist komu inn í flotann eða eru á leiðnni á þessu ári. Þau skip eru bæði hagkvæmari og sparnneytnari, auk þess sem öll aðstaða um borð er til muna betri. Von er m.a. á Engey, nýjum ísfisktogara, til HB. Granda síðar í þessum mánuði. Mikil fjárfesting hefur einnig átt sér stað í landvinnslu, bæði að því er varðar bolfisks- og uppsjávarvinnslu. Nýlega opnaði einnig hátækni uppsjávarvinnsla á Eskifirði.
Heimild: Hagstofa
Skuldastaða sjávarútvegsins hefur batnað verulega og á árinu 2015 höfðu skuldir lækkað um 355 milljarða króna frá árinu 2008 m.v. verðlag ársins 2015, sbr. ofangreinda mynd.
Framlegð hækkaði árið 2015 en óvissa er í framtíð
Hagnaður og framlegð hafa aukist á milli ára, m.a. vegna aukins loðnukvóta og hærra afurðaverðs. Hagnaður ársins 2015 var 45 milljarðar króna og framlegð á sama ári var 70 milljarðar króna. Þegar litið er til áranna 2016 og 2017 er staðan hins vegar breytt. Árið 2016 var gengið óhagstæðara til útflutnings og gengisvísitala styrktist um 15%. Líkt og kunnugt er féll breska pundið gangvart helstu myntum í heiminum eftir útgöngu Breta úr Evrópusambandinu. Ofan á gengisstyrkingu íslensku krónunnar hefur breska pundið fallið gangvart íslensku krónunni um 25%. Þetta hefur veruleg áhrif á íslenskan sjávarútveg enda er Bretland stærsti kaupandi íslenskra sjávarafurða. Ljóst má því vera að staða íslensks sjávarútvegs að þessu leyti árið 2017 er breytt. Þá hefur enginn loðnukvóti verið gefinn út og verkfall sjómanna hefur nú staðið í fimm vikur.
Heimild: Hagstofa, og spá SFS
*m.v. meðalgengi 2016
** gengi 1. Jan 2017
Áætluð framlegð vegna ársins 2016 er um 61,5 milljarðar króna og 43 milljarðar fyrir árið 2017. Tekur þessi áætlun mið af þróun á mörkuðum, gengisáhrifum, olíuverði og þróun launavísitölu. Launavísitala hækkaði um 11% á milli áranna 2015 og 2016, en olíuverð lækkaði aftur á móti um 30-35%. Olíuverðslækkun er hins vegar tvíeggja sverð, þar sem heimsmarkaðsverð á sjávarafurðum hefur þá leitni að fylgja þróun olíuverðs. Þá hafa stór viðskiptalönd komið illa út úr lágu olíuverði. Má þar sérstaklega nefna Nígeríu. Samdráttur í útflutningsverðmætum til Nígeríu milli áranna 2015 og 2016 var um 60%. Nígería hefur verið einn stærsti markaður fyrir íslenskar sjávarafurðir, en útflutningsverðmæti til Nígeríu eru um 10 til 15 milljarðar á ári.
Sé mið tekið af framlegð ársins 2015, er útlit fyrir að framlegð í íslenskum sjávarútvegi dragist saman um 12% milli 2015 og 2016. Skilyrði í rekstri sjávarútvegsins eru verri fyrir árið 2017 og má gera ráð fyrir 38% samdrætti milli áranna 2015 og 2017.
Laun sjómanna hækkuðu árið 2015
Líkt og lýst er hér að ofan spilar gengið stóran þátt í afkomu sjávarútvegs. Gengið hefur ekki aðeins áhrif á afkomu heldur einnig á aflahlut sjómanna. Launakerfi sjómanna byggja á hlutaskiptum aflaverðmætis á milli sjómanna og útgerða. Það þýðir að sjómenn fá hlut í þeim verðmætum sem veiðast. Hlutur þeirra minnkar ekki heldur tekur verðmæti hans breytingum í samræmi við verðbreytingar á mörkuðum. Af því leiðir, að þegar gengi íslensku krónunnar sveiflast þá hefur það áhrif á bæði sjómenn og afkomu í sjávarútvegi. Vegna þess að skilyrði voru hagfelld árið 2015 þá hækkaði verðmæti aflahlutar sjómanna á milli ára um 10%, þ.e. úr 37 milljörðum króna árið 2014 í 41 milljarð króna árið 2015. Aftur á móti er útlit fyrir að verðmæti aflahlutar verði minna árið 2016 og árið 2017, aðallega vegna gengisþróunar.
Heimild: Hagstofa og spá SFS 2016
Á ofangreindri mynd má á hægri ás sjá þróun XDR, þ.e. samsetningu erlendra gjaldmiðla sem stunduð eru viðskipti með. Á vinstri ás má sjá þróun á aflahlut sjómanna og framlegð í fiskveiðum. Líkt og greina má þá þróast aflahlutur og framlegð í takt við gengið. Þegar gengið er veikt þá er hærri framlegð og verðmæti aflahlutar meira. Þegar gengið er sterkt er þessu öfugt farið.