Lagasetning ekki á dagskrá

Deila:

Lagasetning á sjómannaverkfallið er ekki á dagskrá ríkisstjórnarinnar, segir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra í samtali við ruv.is. Deilendur verði að semja og báðir verði að gefa eftir.

Sjómenn hafa verið í verkfalli frá því um miðjan desember og samningaviðræður síðan þá hafa ekki orðið til þess að samkomulag hafi náðst. Í dag var fyrsti samningafundurinn í tæpa viku og lauk honum með því að það slitnaði upp úr viðræðum án þess að nýr fundur hafi verið boðaður.

„Staðan er auðvitað afleit og hún er farin að hafa mikil áhrif til hins verra á markaði fyrir fiskinn okkar,“ segir Þorgerður Katrín Gunnarsdóttir sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra.

Hún segist hafa fylgst vel með deilunni og rætt við þá sem deila. Ljóst sé af þeim samtölum að staðan sé mjög alvarleg. En það stendur ekki til að setja lög á deiluna. „Það þarf að ná breiðri sátt um sjávarútveginn. Lagasetning á verkfall sjómanna myndi ekki stuðla að breiðri sátt til skemmri en ekki síður lengri tíma um sjávarútveginn. Þannig að ég sé ekki slíka lagasetningu vera á dagskrá ríkisstjórnarinnar.“

Ábyrgð deilenda sé hins vegar mikil. „Það er mikil ábyrgð sem hvílir á þeirra herðum og ég veit að þeir gera sér grein fyrir henni. Ég bind vonir við það, og er þar engin Pollýanna, að menn nái á endanum saman. Menn þurfa að gera það, menn þurfa þá um leið að gefa eftir.“

 

 

Deila: