Færeyingar fá meira fyrir fiskinn
Mikill vöxtur hefur orðið í útflutningi sjávarafurða frá Færeyjum á þessu ári. Á tímabilinu september 2021 til ágúst 2022 nemur andvirði útflutningsins 11,2 milljörðum færeyskra króna. Það svarar til 212 milljarða íslenskra króna. Þetta er aukning um 35% miðað við sama tímabil árið áður. Þetta er í fyrsta sinn sem verðmæti útflutnings sjávarafurða á 12 mánaða tímabili fer yfir 11 milljarða færeyskra króna.
Fyrstu átta mánuði ársins nemur útflutningsverðmætið 152 milljörðum króna. Eftir sömu mánuði í fyrra nam verðmætið 110 milljörðum íslenskra króna. Það er aukning um 39% miðað við sama tíma í fyrra.
Útflutningur á makríl í ár hefur aukist um 14% í magni og verðmætið hefur hækkað um 43%. Þarna ræður mestu að verðið á heilfrystum makríl hefur hækkað um 25% og svipaða sögu er að segja af síldinni.
Útflutningur á laxi skilaði 66 milljörðum íslenskra króna, sem er aukning um 34%, þrátt fyrir að magnið hafi dregist saman um 7%.
Gangurinn í útflutningi á þorski, ýsu og ufsa hefur verið góður. Verðmæti þessara tegunda hefur hækkað um 27-69% og verð á þessum tegundum hækkað um 25-33% að meðaltali.