Sturlaugur H. Böðvarsson með mestar heimildir í Rússasjó

Deila:

Ísfisktogari HB Granda, Sturlaugur H. Böðvarsson, er skráður með mestar þorskveiðiheimildir íslenskra togara innan lögsögu Rússa á þessu ári. Samkvæmt aflastöðulista fiskistofu er Sturlaugur með 747 tonna þorskkvóta þar.
Sturlaugur H. Böðvarsson var ekki skráður með heimildir í rússnesku lögsögunni á síðasta ári og úr úthlutun síðasta árs má ráða að aflahlutdeild Þerneyjar sé tímabundið vistuð á Sturlaugi.

Útgerð Sturlaugs hefur nú verið hætt eftir að nýi togarinn Akurey bættist við flota HB Granda. Þerney hefur verið seld, svo hvorugt þessara skipa mun sækja þorsk í Barentshaf í ár, að minnsta kosti ekki undir merkjum HB Granda. Ottó N. Þorláksson RE er einnig horfinn af listanum. Önnur skip HB Granda, sem eru skráð með heimildir til þorskveiða innan rússnesku lögsögunnar eru Höfrungur III AK með 101 tonn og Örfirisey RE með 160 tonn. Annað þessara skipa eða bæði sækja því væntanlega ríflega 1.000 tonna þorskkvóta HB Granda í Rússasjó í ár.

En það eru fleiri breytingar á listanum frá því í fyrra. 15 skip fá úthlutað heimildum nú, en í fyrra voru þau 17. Mánaberg og Sigurbjörg ÓF eru fallið út af listanum og heimildir Múlabergs hafa þegar verið færðar yfir á Sólberg ÓF, sem verður með 584 tonna þorskkvóta þarna uppfrá. Þessi skip eru og voru í eigu Ramma hf. Þá er Síldarvinnsluskipið Blængur NK kominn inn með 155 tonn í stað Barða NK.

Af öðrum skipum með umtalsverðar heimildir í Rússasjó eru Björgvin EA með 435 tonn. Arnar HU með 407 tonn, Guðmundur í Nesi með 326, Snæfell EA með 309 tonn og Kleifaberg RE með 270 tonn.

Miklar millifærslur eru alla jafna á þorskveiðiheimildum í Barentshafi og í fyrra sóttu aðeins fimm skip afla í lögsögu Rússa. Samtals varð aflinn þaðan 3.216 tonn og voru þá ónýttar heimildir til veiða á 1.085 tonna af þorski. Heimildirnar nú eru 3.538 tonn auk möguleika til leigu á frekari heimildum. Ljóst er að eins og í fyrra verða fá skip sem sækja þennan afla, þar sem ekki borgar sig að senda skip uppeftir til að sækja „smá slatta.“

Deila: