Grillaður þorskur
Enn er það þorskur í matinn og það er ekki í kot vísað. Íslenskur gæðaþorskur, glænýr dreginn úr sjó í gær og kominn í búð í morgun og á diskinn í kvöld. Ferskari og betri getur maturinn varla orðið. Nú stendur vertíðin sem hæst fram að páskastoppi og sjálfsagt að nýta sér það.
Við skelltum okkur á netið til að finna góða uppskrift og þessi er bæði einföld og góð. Flottur kvöldverður á köldum vetrardegi.
Innihald:
4 stykki af þorski, 200 g hvert
salt og pipar
1 tsk af hvítlauksdufti
1 bolli af gróft söxuðu spínati
2 tómatar fræhreinsaðir og skornir í teninga
1 saxaður laukur
½ dl ólífuolía
½ dl balsamic edik
4 sneiðar af mozzarella osti skornar í bita
Aðferð:
Forhitið útigrill eða bakaraofn upp í 180°C. Leggið þorsbitana hvern fyrir sig á álpappír og kryddið með salti, pipar og hvítlauksdufti. Setjið spínatið, tómatbitana og laukinn ofan á og kryddið aftur með salti og pipar. Ýrið ólífuolíu og balsamic ediki yfir.
Lokið hverjum pakka fyrir sig þannig að gufa og safi haldist inni. Bakið í grillinu eða ofninum í 10 mínútur eða þar til þorskurinn fer að losna í flögur. Berið fiskinn fram í álpappírnum. Gott með hrísgrjónum, brauði og salati.