Bleikjuböggull
Nú langar okkur í virkilegan góðan kvöldverð og þess vegna verður bleikja fyrir valinu. Hún er að okkar mati einhver besti matfiskur sem völ er á. Bragðið einstakt, liturinn fallegur og fita í minna lagi. Við fórum í uppskriftabankann okkar til að huga að góðri uppskrift, en niðurstaðan varð sitt lítið af hverju svo til varð alveg ný uppskrift. Við ætlum að njóta þessa núna á góðu ágústkvöldi með kældu hvítvíni, góðri tónlist og kertaljósi.
Innihald:
Fjögur góð bleikjuflök um það bil 100 g hvert
stubbur af engifer, flysjaður og saxaður smátt
eitt hvítlauksrif, smátt saxað
eitt lítið rautt chilli, fræhreinsað og saxað smátt
rifinn börkur og safi úr einni sítrónu
½ græn papika
½ rauð paprika
1 púrrulaukur, sneiddur
2 msk soyjasósa
1 msk sesamfræ
1 msk hlynsíróp
sítrónupipar
Aðferð:
Skolið, beinhreinsið, roðflettið og fituhreinsið ef þarf flökin. Takið til sterkan álpappír og mótið úr honum eins konar bakka, eða notið tilbúinn álbakka. Ýrið matarolíu í botninn. Leggið flökin í botninn og stráið smávegis af sítrónupipar yfir.
Hrærið saman soyjasósu, hlynsíróp og sesamfræ og hellið blöndunni jafnt yfir flökin.
Dreifið síðan engifer, hvítlauk, chilli, sítrónuberki, sesamfræjum, papriku og púrrulaukssneiðum yfir. Kreistið loks sítrónuna yfir flökin.
Lokið álbakkanum með álpappír en hafið smá holrúm efst svo gufan geti leikið um flökin meðan þau eldast Setjið bakkann á heitt grill eða inn í 200° heitan ofn og bakið í nokkrar mínútur, 7-10 mínútur eftir þykkt flakanna. Takið lokið af og eldið aðeins meira, ef þarf.
Þegar fiskurinn er fulleldaður er bakkinn borinn á borð gæta þarf þess að safinn sem myndast fylgi með, því gott er að ausa honum yfir fiskinn, þegar hann er kominn á diskinn.
Við mælum er góðum hrísgrjónum eða nýjum íslenskum kartöflum með þessum góða rétti og ekki spillir kælt hvítvín með fyrir þá sem það nota.