Veiða loðnu fyrir norðan

Deila:

Loðnuveiðar hafa gengið heldur erfiðlega á Faxaflóa að undanförnu og því hafa nokkur skipanna farið norður fyrir land í von um að finna þar veiðanlega loðnu sem hentar vel til vinnslu. Polar Amaroq kom á Skagagrunn um miðnætti og kastaði þar þrisvar í nótt.

Skipstjóri er Sigurður Grétar Guðmundsson en hann er í sinni fyrstu veiðiferð sem skipstjóri á skipi sem veiðir með nót. Vart verður annað sagt en byrjunin á nótaveiðinni sé glæsileg hjá Sigurði því Polar Amaroq fékk á milli 500 og 600 tonn af fínustu loðnu í köstunum þremur.

„Hér eru ágætis lóðningar en loðnan stendur djúpt og er alveg niðri á botni yfir daginn. Við erum með tvær nætur um borð og fengum besta kastið með djúpnót sem er 330 faðma löng og 85 faðma djúp. Þessi loðna er með 18% hrognafyllingu og hentar vel til frystingar en við erum að frysta um borð af fullum krafti. Það eru fleiri skip komin hingað norður fyrir eins og Aðalsteinn Jónsson, Hoffell, Álsey og Ásgrímur Halldórsson. Þessi skip keyrðu áfram og fundu loðnu út af Eyjafirði. Það virðist vera töluverð loðna hér nyrðra,“ sagði Sigurður í samtali við heimasíðu Síldarvinnslunnar.
Á myndinni er Polar Amaroq að loðnuveiðum úti fyrir Norðurlandi. Ljósm. Sigmund av Teigum

 

Deila: