Nýsköpun í fyrirrúmi á Whitefish ShowHow

Deila:

Marel bauð til þriðja Whitefish ShowHow viðburðarins í Kaupmannahöfn þann 28. september 2017. Á þessum einstaka viðburði hittust fiskframleiðendur alls staðar að úr heiminum en þar gafst þeim færi á að kynna sér nýjustu tækni, hlusta á fyrirlestra og kynnast fólki sem starfar á sama sviði.

Yfir 150 manns frá 30 löndum komu til Kaupmannahafnar til þess að sjá kynningu á vinnslulausnum í fremstu röð, líkt og FleXicut línuna með nýjum pökkunarvélmennum. Áður en sýningarsalurinn opnaði deildu þrír gestafyrirlesarar reynslu sinni af ólíkum sviðum fiskvinnslu og lögðu þeir sérstaka áherslu á framtíðarþróun iðnaðarins.

Dr. Jón Þrándur Stefánsson, þróunarstjóri Markó Partners og ritstjóri Seafood Intelligence Report, fjallaði um hvernig hvítfiskmarkaðurinn er að breytast, einkum hvað varðar vöruflæði og það hvernig fyrirtæki marka sér stöðu innan greinarinnar.

Jón Þrándur ræddi jafnframt samþjöppun og samkeppnishæfni í samhengi við það hvað mætti læra af öðrum atvinnugreinum, svo sem fiskeldi. Þá spáði hann fyrir um framtíðarþróun og áskoranir og nefndi sérstaklega vald smásalanna og það hvernig fiskvinnslur breyta virðiskeðjunni um leið og þær aðlaga sig að stöðugum breytingum innan greinarinnar.
Lært af laxinum

Leif Inge Karlsen, stofnandi og fyrrum forstjóri Lerøy Hydrotech, miðlaði af yfirgripsmikilli reynslu sinni og þekkingu af fiskeldi og framleiðslu. Hann lagði áherslu á hvernig hvítfiskvinnslur gætu lært af því hvernig laxvinnsluiðnaðurinn hefði aukið gæði afurða og gæti endurtekið það með afurðir úr villtum hvítfiski. Hann talaði bæði almennt en gaf jafnframt dæmi, t.d. um meðferð fisksins, og útskýrði hvernig ,,hvítfiskiðnaðurinn væri nú farinn að herma eftir laxfiskiðnaðinum.” Hann líkti þessu við sambærilega þróun sem átti sér stað fyrir um 60 árum síðan þegar harðfiskframleiðendur kepptu við þá sem framleiddu ferskfiskafurðir.

Leif sagðist bjartsýnn á framtíð hvítfiskvinnslu en lauk máli sínu með þessum orðum: ,,Hvítfiskiðnaðurinn verður að auka gæði og tryggja fiskvinnslum framboð vörunnar, ekki aðeins á vissum árstímum heldur allt árið um kring.”
Nýtt er best

Jorge J. Alonso Ygea, markaðsstjóri Scanfisk Seafood, miðlaði af reynslu Scanfisk af því að ná betri árangri en samkeppnisaðilar sínir með því að nýta stöðugt nýjustu tækni og með því að fjárfesta í rannsóknum, þróun og nýsköpun. ,,Nýtt” var lykilorðið í kynningu Jorges. Hann sagði að nýsköpun snérist um meira en það að hafa nýjustu og bestu aðstöðuna.

Jorge segir að nýsköpun þurfi að ná yfir allt ferlið; frá vöruþróun til að leita leiða til að minnka orkunotkun, til þess að búa til nýjar vörur úr sama hráefninu með því að skera það á nýjan hátt og bjóða upp á nýtt bragð, nýjar pakkningar og nýtt vörumerki. Þau fyrirtæki sem ná lengst eru því þau sem nýta tækniframfarir í skurði, skömmtun, marineringu og pökkun til hins ýtrasta.
Meira frá þessum atburði má sjá á slóðinni https://marel.is/frettir/nyskopun-i-fyrirrumi-a-whitefish-showhow/5067

 

 

Deila: